Innlent

Fjöldi barna í risastórum hoppukastala sem tókst á loft á Akureyri

Kolbeinn Tumi Daðason og Atli Ísleifsson skrifa
Slysið varð á þriðja tímanum í dag á Akureyri.
Slysið varð á þriðja tímanum í dag á Akureyri. Vísir/Lillý

Fjöldi barna var í risastórum hoppukastala sem tókst á loft við Skautahöllina við Naustaveg á Akureyri á þriðja tímanum í dag. Sex voru flutt til skoðunar á sjúkrahús á Akureyri og eitt með sjúkraflugi suður til Reykjavíkur.

Hópslysaáætlun almannavarna og samhæfingarmiðstöð voru virkjaðar og allt tiltækt lið lögreglu og slökkviliðs í öllum Eyjafirði sent á staðinn. Töluvert hvassviðri er á Akureyri þótt heitt sé í veðri.

Jónas Guðmundsson, verkefnastjóri slysavarna hjá Landsbjörg, segir að tiltölulega fá börn hafi slasast. Meiðsli hinna slösuðu séu minniháttar. Eitt barn hafi verið flutt á börum á sjúkrahús. Hann segir 108 börn hafa verið í kastalanum.

Gunnar Gunnarsson, forstjóri Perlunnar, segir að sú talning standist ekki. 47 krakkar hafi verið tékkaðir inn í hollið klukkan 14 og 16 bæst við klukkan 15. Því hafi fjöldinn verið 63 samanlagt.

Nánar er rætt við Gunnar hér að neðan sem axlar alla ábyrgð á slysinu.

Hoppukastalinn gengur undir nafninu Skrímslið. Hann er nýkominn norður en hefur verið staðsettur við Perluna í Öskjuhlíð.

Lögregla hefur óskað eftir næði á slysstað til að athafna sig og hefur aðgangi að svæðinu verið lokað.

Fjöldahjálparstöð hefur verið opnuð í Skautahöllinni þar sem Rauði krossinn sinnir áfallahjálp. Aðstandendum er vísað þangað.

Mikill fjöldi á Akureyri

Fjöldi foreldra og barna eru á svæðinu en N1-mótið á Akureyri, þar sem ellefu og tólf ára drengir keppa í fótbolta, stendur yfir. Þátttakendur eru á þriðja þúsund auk foreldra og fylgdarmanna.

Margir drengir á svæðinu eru klæddir í keppnisboli liða sinna og má sjá hópa hér og þar við slysstað af drengjum úr ólíkum liðum ásamt foreldrum að fylgjast með vinnu viðbragðsaðila.

Slysið varð á þriðja tímanum í dag á Akureyri.Vísir/Lillý

Nýjustu vendingar má sjá í vaktinni að neðan.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira
×