Innlent

Leita á Hornströndum vegna mögulegra ummerkja um ísbjörn

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Þekkt er að ísbirnir gangi á land á Hornströndum. Myndin sýnir þó ísbjörn á Svalbarða.
Þekkt er að ísbirnir gangi á land á Hornströndum. Myndin sýnir þó ísbjörn á Svalbarða. Vísir/Getty

Leit stendur nú yfir á Hornströndum eftir að gönguhópur tilkynnti lögreglu á Vestfjörðum um ummerki eftir mögulegan ísbjörn. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu á Vestfjörðum á öðrum tímanum í nótt.

Fram kemur í tilkynningu að gönguhópurinn hafi tilkynnt um ummerki eftir „óþekkt dýr, mögulega hvítabjörn“ í gærkvöldi. Þegar hafi verið óskað eftir aðstoð þyrlu Landhelgisgæslunnar, sem fór ásamt tveimur lögreglumönnum í eftirlitsflug yfir svæðið. 

Enginn hvítabjörn hafi verið sjáanlegur „en við nánari athugun á vettvangi er ekki útilokað að ummerki frá hvítabirni sé að ræða,“ segir í tilkynningu. Fólk og ferðaþjónustuaðilar á svæðinu hafi þegar verið látnir vita af leitinni, sem haldið verði áfram fram á nótt „og eftir sem þurfa þykir“.

„Lögreglan ráðleggur þeim sem eru á svæðinu að sýna varúð og biður þá sem höfðu stefnt á svæðið að bíða þar til gengið hefur verið úr skugga um að enginn hvítabjörn sé á svæðinu,“ segir í tilkynningu lögreglu.

Þekkt er að hvítabirnir gangi á land á Hornströndum. Þannig var til að mynda ísbjörn felldur í Hornvík í maí 2011 eftir að hafa sést á vappi í fjörunni í Hælavík.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×