Innlent

Vara fólk við „lífs­hættu­legum fífla­skap“

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Nokkuð hefur borið á því að fólk klifri og gangi á hrauninu sem myndast hefur í gosinu í Geldingadölum. Þessa mynd af manni sem var gripinn glóðvolgur við slíka iðju fékk Vísir senda í apríl.
Nokkuð hefur borið á því að fólk klifri og gangi á hrauninu sem myndast hefur í gosinu í Geldingadölum. Þessa mynd af manni sem var gripinn glóðvolgur við slíka iðju fékk Vísir senda í apríl. Kévin Pagès

Lögreglan á Suðurnesjum hefur sent frá sér tilkynningu með yfirskriftinni „Lífshættulegur fíflaskapur – ekki hetjuskapur,“ þar sem því er beint til fólks sem leggur leið sína upp að gosstöðvunum í Geldingadölum að ganga ekki á nýstorknuðu hrauninu sem þar er að finna.

Í tilkynningunni, sem send var út á Facebook, segir að viðbragðsaðilar hafi frá því gosið hófst lagt sig alla fram um að koma í veg fyrir að slys verði á fólki sem heimsækir svæðið, ýmist með leiðbeiningum á staðnum eða með aðstoð frétta- og samfélagsmiðla. Þá hafi gönguleiðir verið stikaðar og þær lagfærðar, hættuleg svæði afmörkuð og grannt fylgst með hraunrennsli og gasmengun sem fólki gæti stafað hætta af.

„Eldgosasvæði er hættulegur staður að vera á og almenn skynsemi ætti því að segja fólki að nauðsynlegt er að gæta varúðar, hlusta á og fara eftir ráðleggingum viðbragðsaðila og vísindamanna. Sem betur fer hafa ekki orðið mjög alvarleg slys á fólki, þó að stundum hafi ekki mátt miklu muna.

Nú hefur borið hefur á því undanfarið að fólk gangi út á hraunið á gosstöðvunum. Ekki þarf að fjölyrða um hversu hættulegt athæfi þetta er. Algjörlega er óvíst hvort nýstorknað yfirborð hrauns haldi og undir því getur verið rauðglóandi kvika,“ segir í tilkynningunni.

Þá er því bætt við að með því að fara út á hraunið sé fólk að setja björgunaraðila í „algjörlega vonlausa stöðu,“ fari hlutirnir á versta veg.

„Maðurinn má sín lítils gagnvart náttúruöflunum sem þarna eru á ferðinni, ef eitthvað fer úrskeiðis. Á gossvæðinu er hættan raunveruleg og þarna er fólk statt í raunveruleikanum, en ekki fyrir framan tölvu þar sem hlutirnir ganga út á sýndarveruleika og hægt er að kaupa sér líf.“


Tengdar fréttir

Sagt að hypja sig úr landi og koma aldrei aftur

Bandaríkjamaðurinn Vincent Reynolds, maðurinn sem komst í fréttir hér á landi þegar hann gekk upp að gígnum í Geldingadölum og hljóp síðan niður þegar hraun tók að streyma úr gígnum, segist ekki hafa ætlað að móðga nokkurn mann eða særa með athæfi sínu.

Gekk á nýju hrauni rétt fyrir sprengingu

Ljósmyndari sem var á ferð við hraun úr gossprungunni á Reykjanesi sem opnaðist á öðrum degi páska varð vitni að því að maður fór upp á nýtt hraunið til að komast nær rennandi hrauntaumunum Nokkrum mínútum síðar varð sprenging neðanjarðar sem skók alla nærstadda.

„Hann hoppaði upp á þennan stall með glóandi hraunið undir sér“

Hermann Helguson, leiðsögumaður og ljósmyndari, var staddur við gosstöðvarnar í Geldingadal rétt fyrir klukkan hálf tvö í nótt þegar hann varð vitni að því að karlmaður steig upp á hraunið sem vall úr eldfjallinu. Undir storknuðum pallinum, sem maðurinn stóð á, má sjá glóandi hraun vella fram.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×