Fótbolti

Sjáðu mörkin frá þjóðhátíðinni á Parken og öll hin úr EM-leikjum gærdagsins

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Andreas Christensen skoraði þriðja mark Danmerkur gegn Rússlandi og tileinkaði það Christian Eriksen.
Andreas Christensen skoraði þriðja mark Danmerkur gegn Rússlandi og tileinkaði það Christian Eriksen. getty/Stuart Franklin

Ellefu mörk voru skoruð í leikjunum fjórum á Evrópumótinu í gær. Fimm þeirra komu á Parken þar sem Danir unnu Rússa.

Danmörk hafði tapað fyrstu tveimur leikjum sínum í B-riðli en átti samt möguleika á að komast áfram í sextán liða úrslit. Danir þurftu að vinna Rússa og treysta á að Belgar myndu sigra Finna á sama tíma. Og það gekk eftir.

Danir unnu 4-1 sigur á Rússum á Parken þar sem gleðin var við völd. Mikkel Damsgaard, Yussuf Poulsen, Andreas Christensen og Joakim Mæhle skoruðu mörk danska liðsins. Artem Dzyuba skoraði mark Rússlands úr vítaspyrnu. Danir mæta Walesverjum í sextán liða úrslitum EM en Rússar eru úr leik.

Sjálfsmark Lukás Hrádecky og þriðja mark Romelus Lukaku á EM tryggðu Belgum sigur á Finnum, 2-0, í St. Pétursborg. Belgía vann alla leiki sína í B-riðlinum.

Klippa: 21. júní - Markasúpa dagsins

Úrslitin réðust einnig í C-riðli í gær. Austurríki tryggði sér farseðilinn í sextán liða úrslit með 1-0 sigri á Úkraínu í Búkarest, 1-0. Christoph Baumgartner skoraði eina mark leiksins á 21. mínútu.

Í hinum leik riðilsins sigraði Holland Norður-Makedóníu, 3-0. Georginio Wijnaldum skoraði tvö mörk og Memphis Depay eitt. Hollendingar unnu riðilinn með fullu húsi stiga en Norður-Makedóníumenn enduðu stigalausir á botni hans.

Öll mörkin úr leikjum gærdagsins á EM má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.


EM 2020 verður sýnt á Stöð 2 Sport EM 2020 sem er hluti af Sportpakkanum, Stóra pakkanum og Risapakkanum. EM 2020 verður einnig hægt að kaupa stakt á kr. 6.990 en fyrir viðskiptavini með aðra áskrift en ofangreindar frá Stöð 2 kostar áskriftin kr. 3.990.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.