Innlent

„Ekki vera fimmtugur, fullur og prófa þetta“

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Hjalti Már Björnsson, yfirlæknir á bráðamóttökunni.
Hjalti Már Björnsson, yfirlæknir á bráðamóttökunni. vísir/vilhelm/egill

Nokkrir leita á bráðamóttöku landspítalans á hverjum degi vegna rafskútuslysa, flestir með andlitsáverka eða áverka á handleggjum. Um fjörutíu prósent slasaðra hafa verið undir áhrifum áfengis.

Síðusu misseri hafa reglulega verið sagðar fréttir af rafskútuslysum í Reykjavík. Um helgina fékk lögreglan á höfuðborgarsvæðinu til að mynda tvær tilkynningar með nokkurra mínútna millibili um rafskútuslys en í örðu slysanna var notandinn fluttur með sjúkrabíl á bráðamóttökuna.

„Þetta eru nokkrir á hverjum degi sem koma út af þessum slysum,“ segir Hjalti Már Björnsson, yfirlæknir á bráðamóttökunni.

Hvernig eru þessi slys? „langoftast er það þannig að fólk missir jafnvægi á hjólinu eða dettur eða rekst á gangstéttarbrún og fellur af því en þá yfirleitt ekki á mjög miklum hraða.“

Áverkar á andliti og handleggjum algengast

Fólk hafi ekki fengið lífshættulega áverka hér á landi. „En að sjálfsögðu geta þetta verið skurðir sem geta skilið eftir sig lýti í andliti eða beinbrot sem geta haft óþægilegar afleiðingar fyrir viðkomandi,“ segir Hjalti Már og bætir við að flestir slasist á handleggjum eða í andliti.

Þá eru rafskútuslysin meira áberandi um helgar. „Í nákvæmri skráningu sem við vorum með síðasta sumar þá reyndust fjörutíu prósent þeirra sem slösuðust á rafskútum undir áhrifum áfengis, meðal fullorðinna. Ég vil túlka það þannig að það séu ekki rafskúturnar sem eru vandamálið heldur áfengið. Ekki vera fimmtugur fullur að prófa þetta um miðja nótt,“ segir Hjalti. 

Wind og Hopp eru vinsælar leigur á markaði í dag.Vísir/Kolbeinn Tumi

Mælir með hjálmanotkun

Það er ekki skylda að vera með hjálm á rafskútu. 

„Ég mæli með því að nota þá er flestir þessara áverka eru andlitsáverkar sem hjólahjálmur ver þig ekki fyrir en slíkur hjálmur myndi verja þig fyrir alvarlegustu formunum af heilaáverkum. En ég mæli með því að fólk noti hjálma en það á alls ekki að gera það að lögbroti að nota þennan vistvæna samgöngumáta án hjálma,“ segir Hjalti. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×