Lífið

Jón Gnarr verður Skugga-Sveinn

Elma Rut Valtýsdóttir skrifar
Jón Gnarr, leikari og fyrrverandi borgarstjóri mun bregða sér í hlutverk Skugga-Sveins á næsta ári.
Jón Gnarr, leikari og fyrrverandi borgarstjóri mun bregða sér í hlutverk Skugga-Sveins á næsta ári.

Stórleikarinn og fyrrverandi borgarstjórinn Jón Gnarr mun fara með hlutverk Skugga-Sveins í uppsetningu Leikfélags Akureyrar á samnefndu leikriti. Stefnt er að því að frumsýna leikritið um miðjan janúar á næsta ári.

Marta Nordal leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar mun leikstýra verkinu. Hún segir stórkostlegt að fá „náttúruaflið og listamanninn“ Jón Gnarr í hlutverk Skugga-Sveins.

„Það eru svo sannarlega spennandi tímar framundan hjá LA og við getum ekki beðið eftir að hefja þetta ferðalag, kveikja í gömlum glæðum þessa verks og enduruppgötva það,“ segir Marta.

Leikritið um Skugga-Svein er eftir þjóðskáldið Matthías Jochumson og var fyrst sett á svið árið 1862. Þjóðleikhúsið flutti leikritið í svokölluðu Hljóðleikhúsi þegar kórónuveirufaraldurinn stóð sem hæst á síðasta ári. Þar fór leikkonan Ólafía Hrönn Jónsdóttir með hlutverk Skugga-Sveins. Þá eru þeir Jóhann Sigurðarson og Eyvindur Karlsson einnig meðal þeirra sem gætt hafa persónu Skugga-Sveins lífi.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.