Innlent

Telur órökrétt að hætta að skima bólusetta

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Ingileif Jónsdóttir, prófessor í ónæmisfræði, hefur áhyggjur af mikilli útbreiðslu indverska afbrigðisins. Dæmi hafa sýnt að það sé bráðsmitandi og geti meðal annars valdið alvarlegum veikindum hjá ungu fólki og börnum. 
Ingileif Jónsdóttir, prófessor í ónæmisfræði, hefur áhyggjur af mikilli útbreiðslu indverska afbrigðisins. Dæmi hafa sýnt að það sé bráðsmitandi og geti meðal annars valdið alvarlegum veikindum hjá ungu fólki og börnum.  Vísir/Vilhelm

Ingileif Jónsdóttir, prófessor í ónæmisfræði, telur órökrétt að hætta að skima bólusetta einstaklinga á landamærunum, ekki síst vegna mikillar útbreiðslu hins svokallaða indverska afbrigðis. Áfram sé hætta á öðrum faraldri.

Til stendur að hætta að skima einstaklinga sem koma hingað til lands með bólusetningavottorð eða vottorð um fyrri sýkingu af Covid-19 þann 1. júlí. Um áttatíu prósent þeirra sem koma til landsins eru með slík vottorð. Ingileif vill að ákvörðuninni verði frestað.

„Ég held að við ættum að bíða með það. Og í fyrsta lagi þá getum við fagnað því mjög hvað við erum búin að ná góðum árangri, við erum búin að bólusetja að minnsta kosti einn skammt, um 70 prósent þjóðarinnar. Þannig að við erum í alveg í toppi þar. En það tekur tíma fyrir fólk að fá fullt ónæmi eftir bólusetningu,” segir hún.

Ingileif bendir á að svokallað Delta-afbrigði, sem rakið er til Indlands, sé í mikilli útbreiðslu víða um heim. Tveir ferðamenn greindust með afbrigðið hér á landi í vikunni en þeir voru fullbólusettir.

„Við gætum alveg séð fram á nýjan faraldur vegna þess að þessi afbrigði öll, og þá kannski sérstaklega þetta Delta-afbrigði indverska, er miklu meira smitandi. Ef þau ná að dreifast til þeirra óbólusettu eins og unglinga til dæmis, að þá geta þau auðveldlega dreifst um landið og við gætum séð faraldur,“ segir hún og bendir á að afbrigðið geti valdið alvarlegum veikindum hjá ungu fólki og börnum, en yngsti hópurinn hefur ekki fengið bólusetningu. 

„Á meðan það er svona mikið um smit í löndunum í kring af þessum skæðari afbrigðum sem bóluefni ráða illa við að þá held ég að það sé mjög góð varúðarráðstöfun að halda áfram, ég myndi gjarnan vilja sjá það út sumarið.”Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.