Fótbolti

Eriksen útskrifaður af spítala

Valur Páll Eiríksson skrifar
Christian Eriksen hélt heim af spítala í dag eftir sex daga dvöl.
Christian Eriksen hélt heim af spítala í dag eftir sex daga dvöl. Pool via AP/Stuart Franklin

Daninn Christian Eriksen hefur verið útskrifaður af spítala eftir tæplega vikudvöl í kjölfar hjartaáfalls sem hann fékk í leik Danmerkur og Finnlands á EM þann 12. júní síðastliðinn. Eriksen þakkar fyrir stuðninginn sem hann hefur hlotið í yfirlýsingu sem danska knattspyrnusambandið sendi frá sér nú síðdegis.

Eriksen fór í hjartastopp seint í síðari hálfleik í leik Dana við Finna á Parken síðasta laugardag. Hjartanu var komið aftur af stað á vellinum og fór hann í kjölfarið beinustu leið á Rigsspítalann í Kaupmannahöfn til rannsókna.

Blessunarlega hefur hann verið í stöðugu ástandi síðan. Bjargráður var græddur í Eriksen í gær og þykir ástand hans í dag nægilega gott til að hann geti farið heim.

Hann yfirgaf spítalann því í dag og hitti félaga sína í landsliðinu á æfingasvæði þeirra í Helsingör áður en hann hélt heim.

„Þakka ykkur fyrir gríðarlegan fjölda góðra kveðja - það hefur verið ótrúlegt að sjá og finna. Aðgerðin gekk vel, og ég hef það gott miðað við aðstæður. Það var virkilega gott að hitta strákana aftur eftir frábæran leik í gærkvöldi. Það segir sig sjálft að ég mun hvetja þá áfram gegn Rússum á mánudag.“ er haft eftir Eriksen í tilkynningu danska knattspyrnusambandsins, DBU.

Danir eru án stiga á botni B-riðils eftir töp gegn bæði Finnum og Belgum í fyrstu tveimur leikjum sínum en sigur á Rússum í lokaleik þeirra á mánudaginn gæti fleytt þeim áfram í 16-liða úrslit.

EM 2020 verður sýnt á Stöð 2 Sport EM 2020 sem er hluti af Sportpakkanum, Stóra pakkanum og Risapakkanum. EM 2020 verður einnig hægt að kaupa stakt á kr. 6.990 en fyrir viðskiptavini með aðra áskrift en ofangreindar frá Stöð 2 kostar áskriftin kr. 3.990.


Tengdar fréttir

Bjarg­ráður verður græddur í Erik­sen

Christian Erik­sen, danski lands­liðs­maðurinn í knatt­spyrnu sem fékk hjarta­stopp í leik Dana og Finna á Evrópu­mótinu síðustu helgi, mun fara í að­gerð og fá græddan í sig svo­kallaðan bjarg­ráð.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.