Fótbolti

Sergio Ramos brotnaði niður í kveðju­ræðunni: Real dró til­boðið til baka

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sergio Ramos skoðar alla bikarana sem hann vann með Real Madrid.
Sergio Ramos skoðar alla bikarana sem hann vann með Real Madrid. Getty/Helios de la Rubia

Sergio Ramos kvaddi Real Madrid í sérstakri viðhöfn í gær og þar kom fram að kappinn ætlaði sér aldrei að yfirgefa félagið.

Ramos brotnaði niður upp í pontu þegar hann hélt kveðjuræðu sína í sal á æfingasvæði spænska félagsins en meðal gesta voru forsetinn Florentino Perez, stjórnarmenn, starfsmenn félagsins og fjölskylda Ramos.

Real Madrid hafði daginn áður gefið það út að hinn 35 ára gamli miðvörður væri á förum frá félaginu þegar samningur hans rennur út í lok þessa mánaðar.

„Ég vildi aldrei fara frá Real Madrid. Ég vildi vera hér áfram. Á síðustu mánuðum þá bauð félagið mér eins árs samning á lægri launum. Ég vil samt taka það framar að peningarnir voru aldrei vandamál og forsetinn veit það,“ sagði Sergio Ramos.

„Þetta snerist aldrei um peninga. Þeir buðu mér eins árs samning en ég vildi tveggja ára samning. Ég vildi ró og samfelldni fyrir mína fjölskyldu. Í síðustu viðræðunum þá samþykkti ég tilboðið með launalækkun en þá var mér sagt að það tilboð væri ekki lengur á borðinu,“ sagði Ramos.

„Mér var sagt að þó að ég hefði sagt já við þessu tilboði þá hafði það gildistíma og ég áttaði mig ekki á því. Það kom mér á óvart,“ sagði Ramos.

Ramos vildi ekki fara nánar út í samningaviðræðurnar nema það að Real Madrid hafi haft samband við umboðsmann hans í síðustu viku og sagt honum frá þessum óvæntu tíðindum að samningstilboðið væri ekki lengur í boði.

Ramos hefur verið mikið orðaður við Manchester City en hitt Manchester liðið er einnig sagt vera áhugasamt.

„Ég hef ekki hugsað um eitt ákveðið lið. Það er satt að síðan í janúar hafa félög mátt hafa samband og áhugasöm félög hafa hringt í bróður minn. Ég ætlaðihins vegar aldrei að fara. Núna þarf ég að skoða hvað er í boði,“ sagði Sergio Ramos.

Ramos var fyrirliði Real Madrid og spilaði 671 leik og skoraði 101 mark fyrir félagið síðan að hann kom til félagsins nítján ára gamall frá Sevilla árið 2005.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.