Innlent

Dæmdur fyrir að hafa sent á­fram nektar­myndir af fyrr­verandi kærustu sinni

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Héraðsdómur Suðurlands dæmdi manninn fyrir brotin en hann mun ekki sæta fangelsisvist. 
Héraðsdómur Suðurlands dæmdi manninn fyrir brotin en hann mun ekki sæta fangelsisvist.  Vísir/Vilhelm

Karlmaður var á dögunum dæmdur brotlegur í Héraðsdómi Suðurlands fyrir brot í nánu sambandi. Maðurinn hafði meðal annars hótað fyrrverandi sambýliskonu sinni og barnsmóður ítrekað, og sent nektarmyndir af henni áfram á fleiri aðila. Maðurinn mun ekki sæta refsingu en honum er gert að greiða allan málskostnað.

Dómurinn féll þann 9. júní síðastliðinn. Var manninum meðal annars gert að sök að hafa hótað fyrrverandi kærustu sinni ítrekað í gegn um samskiptaforritið Messenger. Hann hafði meðal annars sent konunni nektarmyndir af henni og ýjað að því að hann gæti birt hana á veraldarvefnum.

Þá hafði hann hótað því að senda nektarmyndir af henni á þriðja aðila svaraði hún ekki símhringingum hans. Stuttu síðar lét hann verða af hótununum með því að senda myndina áfram og í kjölfarið tók hann skjáskot af því að hann hafi sent myndina, og sendi konunni skjáskotið. Með skjáskotinu sendi hann textann: „Þu valdir tetta.“

Þá hafði maðurinn brotist inn á aðgang fyrrverandi kærustunnar á Facebook, sem hún hafði þá sjálf í notkun, og í gegn um einkaskilaboð á hennar aðgangi hótað þáverandi kærasta konunnar: „If you ever talk to A again i will fuck you up and make your life a living hell. Never talk to her again!!!! I will find you and brake your face and every bone in your body,“ skrifaði maðurinn í skilaboðunum til þáverandi kærasta konunnar.

Þá hafði maðurinn einnig sent konunni skjáskot sem sýndi samskipti mannsins og þriðja aðila þar sem maðurinn sagðist eiga myndband af konunni í kynferðislegum athöfnum.

Maðurinn viðurkenndi öll brotin og taldist því sannað að maðurinn hafi gerst sekur um þau. Maðurinn hefur þrisvar sinnum áður sætt refsingu, meðal annars vegna ráns og umferðarlagabrota, fíkniefnalaga- og lyfjabrota og líkamsárásar og stórfelldar líkamsárásar. Maðurinn hefur fyrir þessi brot setið í fangelsi í fjögur og hálft ár.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×