Innlent

Lágstemmd hátíðarhöld á morgun

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Aldís Amah Hamilton var fjallkonan árið 2019. 
Aldís Amah Hamilton var fjallkonan árið 2019.  Friðrik Þór Halldórsson

Hátíðarhöld verða lágstemmd í miðborginni á þjóðhátíðardegi Íslendinga á morgun vegna faraldurs kórónuveirunnar og verður dagskrá dreift víða um borgina til að forðast hópamyndanir. 

Hefðbundin morgunathöfn hefst á Austurvelli klukkan ellefu þar sem forsætisráðherra Íslands og fjallkonan halda ávarp en athöfninni verður í beinni útsendingu á RÚV. Þaðan verður gengið í Hólavallakirkjugarð þar sem blómsveigur verður lagður við leiði Jóns Sigurðssonar og Ingibjargar Einarsdóttur. Að því búnu tekur við fjölbreytt hátíðardagskrá.

„Það eru listhópar Hins hússins, götuleikhúsið, sirkúslistafólk, dans og tónlist. Svona „pop up“ víðsvegar um miðborgina. Þannig að ef að fólk ætlar að rölta niður í bæ þá gæti það átt von á að lúðrasveit labbi framhjá eða dans verði á götuhorni. Þannig að þetta verður smá í flæðinu,“ sagði Aðalheiður Santos Sveinsdóttir, viðburðarstjóri hjá Reykjavíkurborg.

Hátíðarhöld í Reykjavík verða með lágstemmdara móti en venjulega vegna faraldurs kórónuveirunnar og verður dagskrá dreift víða um borgina til þess að forðast hópamyndanir.

„Í fyrra fengum við að vera fimm hundruð manns saman en í ár eru aðeins þrjú hundruð þannig við reynum að dreifa álaginu. Við ætlum að vera með matarvagna bæði í Hljómskálagarði og á Klambratúni ásamt sirkusfólki sem er á vappinu um svæðið þannig við erum ekki með neina tímasetta dagskrá til þess að forðast hópamyndanir,“ sagði Aðalheiður.

Fjölbreytt dagskrá um land allt

Á Akureyri hefst dagskrá klukkan 13 í Lystigarðinum þar sem forseti bæjarstjórnar heldur hátíðarávarp. Milli klukkan 14 og 16 verður svo fjölskyldu- og hátíðardagskrá á Ráðhústorginu, en að því búnu tekur við kvölddagskrá í miðbænum til miðnættis.

Flest sveitarfélög hafa birt dagskrá á vef sínum. Í Kópavogi hefst dagskrá klukkan tíu þegar haldið verður hlaup fyrir 1.-6. bekk á Kópavogsvelli og í Garðabæ verður meðal annars boðið upp á Kanósiglingar í Sjálandi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×