Innlent

Þrjár tegundir bætast á lista yfir bannaða hunda

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Hundur af tegundinni Cane Corso.
Hundur af tegundinni Cane Corso.

Til stendur að bæta þremur tegundum á bannlista yfir hunda sem ekki má flytja til landsins. Félag ábyrgra hundaeigenda gagnrýnir nálgunina, sem formaður félagsins segir skapa „falskt öryggi“.

Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag en þar segir að samkvæmt drögum að nýrri reglugerð standi til að setja tegundirnar Boerboel, Cane Corso og Presa Canario á bannlista. Þar eru fyrir Pit Bull Terrier og Staffordshire Bull Terrier, Fila Brasileiro, Toso Inu og Dogo Argentino.

Freyja Kristinsdóttir, dýralæknir og formaður Félags ábyrgra hundaeigenda, segir það skapa falskt öryggi að banna ákveðnar tegundir. Það þýði ekki að allir hundar sem eru leyfðir séu hættulausir.

„Allir hundar geta bitið. Þess vegna þarf að meta hvern og einn hund fyrir sig,“ segir hún. „Í langflestum tilfellum bíta hundar vegna þess að fólk kann ekki að umgangast þá. Ef þeim líður illa í vissum aðstæðum og komast ekki burt getur eina leiðin þeirra verið að glefsa eða bíta frá sér.“

Hrund Hólm, dýralæknir inn- og útflutnings hjá MAST segir tegundamiðaðar reglur ekki óumdeildar en bendir á að umræddir hundar séu stórir og öflugir og hafi verið ræktaðir sem varðhundar, bardagahundar eða til að veiða stór dýr.

„Heilt yfir er mikil breidd innan tegunda en þessir hundar hafa þannig eiginleika að það er nauðsynlegt að hafa vissa kunnáttu í allri umgengni við þá. Því ef þeir verða árásargjarnir geta þeir valdið miklu tjóni.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×