Innlent

Maðurinn ekki lengur talinn í bráðri lífs­hættu en honum haldið sofandi

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Árásin var framin á Hafnarstræti, milli Hlöllabáta og Fjallkonunnar.
Árásin var framin á Hafnarstræti, milli Hlöllabáta og Fjallkonunnar. Vísir/Einar

Maðurinn sem ráðist var á með eggvopni á aðfaranótt sunnudags er ekki talinn í bráðri lífshættu lengur. Honum er þó haldið sofandi á gjörgæsludeild Landspítala. Þetta staðfestir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við fréttastofu. 

„Okkar upplýsingar eru þær að hann sé úr bráðri lífshættu en honum er enn haldið sofandi,“ segir Grímur.

Árásin var framin fyrir utan veitingastaðinn Fjallkonuna í Hafnarstræti á aðfaranótt sunnudags. Maður um tvítugt var fluttur illa særður, eftir að hafa verið stunginn með eggvopni í kviðinn, á Landspítala og hann færður á gjörgæslu þar sem hann liggur enn þungt haldinn. 

Grímur segir rannsókninni miða vel en hún sé fjarri því að vera lokið. Ekki hafi tekist að komast til botns í því hvort bílbruni sem kom upp í Kópavogi á aðfaranótt sunnudags tengist árásinni. Þá sé ekki víst hvort eggvopn, sem lögregla lagði hald á á vettvangi, sé vopnið sem beitt var í árásinni.

„Við erum enn að ná utan um þetta mál, yfirheyra vitni og þess háttar. Reyna að afla gagna til notkunar í rannsókninni. Það var töluvert af fólki sem var þarna í kring. Það var rætt við það á staðnum af lögreglumönnum sem þar voru en það þarf að fara betur í það,“ segir Grímur.

Hinn grunaði, sem einnig er um tvítugur, var handtekinn í heimahúsi í Kópavogi í gærmorgun og var hann leiddur fyrir dómara í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Þar var hann úrskurðaður í gæsluvarðhald og verður hann í haldi fram á föstudag. 

Málið er til rannsóknar og er grunur uppi um að það tengist íkveikju í bifreið í Kópavogi í gærnótt.  


Tengdar fréttir

Vopnið ó­fundið: Maður um tví­tugt í lífs­hættu

Vopn sem notað var þegar karlmaður um tvítugt var stunginn í miðbænum í nótt er ekki fundið. Maðurinn liggur þungt haldinn á Landspítalanum en lögreglan handtók meintan árásarmann í heimahúsi í Kópavogi undir morgun.

Í lífs­hættu eftir hnífs­tungu­á­rás í mið­bænum í nótt

Einn er í lífshættu eftir hnífstunguárás í miðbæ Reykjavíkur í nótt. Einstaklingurinn er á gjörgæslu eftir að hafa verið stunginn í kviðinn en sá grunaði var handtekinn í morgun og er nú í haldi lögreglu. Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, staðfestir þetta í samtali við fréttastofu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×