Innlent

Ný herferð Ljóssins lítur dagsins ljós

Árni Sæberg skrifar
Eliza Reid tekur til máls við athöfnina.
Eliza Reid tekur til máls við athöfnina.

Eliza Reid forsetafrú ýtti nýrri auglýsingaherferð Ljóssins úr vör í gær við hátíðlega athöfn í höfuðstöðvum Ljóssins á Langholtsvegi. 

Ljósið er endurhæfingarmiðstöð fyrir krabbameinsgreinda en einnig veitir Ljósið aðstandendum krabbameinsveikra stuðning og fræðslu.

Herferðin ber yfirskriftina „Þinn stuðningur er okkar endurhæfing“ og leggur áherslu á þakklætið sem þjónustuþegar Ljóssins finna til þeirra sem styðja Ljósið, svokallaðra Ljósavina.

„Ljósavinir eru lykilþáttur í rekstri Ljóssins og við finnum fyrir svo ótrúlega miklu þakklæti til þeirra frá þeim einstaklingum og aðstandendum sem nýta sér þjónustu Ljóssins. Því fannst okkur kjörið að það yrði kjarninn í herferðinni,“ segir Sólveig Kolbrún Pálsdóttir, kynningarstjóri Ljóssins.

Leikstjóri herferðarinnar er Ninna Pálmadóttir, en hún nam leikstjórn í NYU Tisch School of the Arts, og hlaut hún Edduna fyrir myndina Paperboy.

Ninna Pálmadóttir leikstjóri kynnir herferðina.Ljósið

Mikil aðsókn í endurhæfingu

„Sá fjöldi sem til okkar sækir endurhæfingu eykst með hverjum mánuðinum. Við erum sífellt að þróa þjónustuleiðir og –framboð og treystum í þeirri vinnu áfram á grasrótina í Ljósinu, Ljósavinina, sem stutt hafa dyggilega við bak okkar. Þeir hafa aldrei verið mikilvægari,“ segir Erna Magnúsdóttir, stofnandi Ljóssins.

Ljósið þakkar öllum sem voru viðstaddir athöfnina, þeim sem tóku þátt á Facebook og öllum Ljósavinum fyrir þeirra framlag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×