Erlent

„Guð minn góður, ég er í gini hvals“

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Hnúfubakur gleypti sjómann í Bandaríkjunum í gær. Þeir sluppu til allrar lukku báðir ómeiddir.
Hnúfubakur gleypti sjómann í Bandaríkjunum í gær. Þeir sluppu til allrar lukku báðir ómeiddir. Skjáskot

Bandarískur humarsjómaður lenti í því magnaða atviki að vera gleyptur af Hnúfubaki, sem virðist ekki hafa líkað bragðið og spýtti honum aftur út. Hann slapp vel þrátt fyrir martraðakennda sögu og virðist aðeins hafa farið úr öðrum hnjálið.

Michael Packard var að kafa eftir humriþegar hvalurinn gleypti hann og hélt honum í munni sínum í um hálfa mínútu áður en hann spýtti honum aftur út fyrir utan strendur Provincetown í Massachusetts.

Þrátt fyrir beiðnir eiginkonu Packards um að hann fái sér nýja vinnu hefur hann tekið þá ákvörðun að gefast ekki upp á fjörutíu ára starfsferli sínum og ætlar að halda áfram að kafa.

Hnúfubakar geta orðið allt að fimmtán metra langir og vega um 36 tonn. Samkvæmt samtökunum World Wildlife Fund eru um 60 þúsund hnúfubakar í heiminum.

Packard, sem er 56 ára gamall, sagði í samtali við Cape Cod Times að hann og félagi hans hafi farið á báti sínum, Ja‘n J, og siglt frá Herring Cove á föstudagsmorgunn. Aðstæður hafi verið frábærar og þeir hafi séð um tuttugu metra niður í sjóinn. Eftir að hann hafi hoppað ofan í sjóinn hafi hann fundið hnykk og allt í einu hafi allt verið svart.

Hann hélt til að byrja með að hvíthákarl hafi ráðist á sig en svo hafi hann þreifað til og ekki fundið neinar tennur.

„Og þá fattaði ég: Guð minn góður, ég er í gini hvals og hann mun gleypa mig. Nú mun ég deyja.“

Hann segist hafa hugsað til eiginkonu sinnar og tveggja sona, sem eru 12 og 15 ára gamlir.

„Svo allt í einu fór hann upp á yfirborðið og blés og hristi hausinn. Ég skaust upp í loftið og lenti aftur í vatninu. Ég var frjáls og flaut þarna. Ég trúi þessu ekki… en ég er hér til að segja söguna.“

Félagi hans, sem beið í örvæntingu eftir að sjá einhver merki um Packard, á meðan hann var inni í hvalnum, dró hann aftur í bátinn. Þeir sendu út hjálparbeiðni og sjúkrabíll sótti hann á bryggjuna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×