Umfjöllun og viðtöl: Ísland - Írland 3-2 | Sigur í fyrsta heimaleik stelpnanna undir stjórn Þorsteins

Sverrir Mar Smárason skrifar
Stelpurnar fagna marki.
Stelpurnar fagna marki. vísir/hulda

Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu tóku á móti því Írska á Laugardalsvelli í kvöld. Leiknum endaði með 3-2 sigri Íslenska liðsins.

Íslenska liðið byrjaði töluvert betur undan vindi og eftir 11 mínútna leik var það Glódís Perla sem sendi góða sendingu aftur fyrir vörn Íranna, beint í hlaupið á Ögla María Albertsdóttur sem kom Íslandi yfir með snyrtilegri afgreiðslu. Aðeins 3 mínútum síðar var svo komið að fyrirliðanum, Gunnhildi Yrsu, og kom hún Íslandi í 2-0 eftir að skalli Öglu Maríu datt fyrir framan hana í markteig Íra.

Á 39 mínútu kom Dagný Brynjarsdóttir Íslandi svo í 3-0 eftir frábæra sókn Íslenska liðsins. Alexandra Jóhannesdóttir hafði þá skotið í stöng og boltinn rann til Dagnýjar sem lagði hann inn. Hálfleikstölur 3-0.

Í seinni hálfleik spilaði Ísland gegn vindi og gekk þá verr að halda boltanum og leysa pressu Írska liðsins. Írar mættu mun grimmari út í seinni hálfleik og uppskáru mark þegar aðeins 5 mínútur voru liðnar af hálfleiknum. Heather Payne náði þá að stýra inn fyrirgjöf frá vinstri kannti og staðan orðin 3-1.

Mikil barátta var í síðari hálfleik og sóttu Írar talsvert meira. Íslenska liðið átti í erfiðleikum með að hreinsa boltann almennilega frá. Það var þó ekki fyrr en seint í leiknum, í uppbótartíma, sem Írar náði að minnka muninn en frekar. Það gerðu þær með marki frá Amber Barrett sem kláraði framhjá Söndru eftir góða stungusendingu frá Niamh Fahey. Lokatölur 3-2.

Gunnhildur með fyrirliðabandið í kvöld.vísir/huldad

Af hverju vann Ísland?

Fyrri hálfleikur var virkilega vel settur upp hjá Íslandi í dag. Hápressan gekk vel og unnu þær boltann oft í góðum stöðum. Íslenska liðið hélt boltanum vel í fyrri hálfleik, fékk að stíga hátt upp á völlinn og gekk vel að finna góð svæði. Mörkin 3 sem Ísland skoraði í fyrri hálfleik voru góð og erfitt fyrir Íra að koma til baka úr því.

Hverjar stóðu upp úr?

Glódís Perla var virkilega sterk í vörn Íslands og lagði upp fyrsta markið. Agla María bæði skoraði og lagði upp auk þess að ógna sífellt með sínum hraða í flottum fyrirgjöfum. Öll miðja Íslands átti flottan leik og leystu þær margar stöður vel.

Hjá Írum var það varamaðurinn Amber Barrett sem stóð uppúr. Hún kom inná í hálfleik, lagði upp fyrra markið og skoraði sjálf það seinna.

Hvað gekk illa?

Íslenska liðið náði ekki að skapa sér nógu mörg góð færi úr þeim fjölmörgu góðu stöðum sem þær komu sér í, sérstaklega í fyrri hálfleik. Elín Metta var sífellt að berjast og reyna að ógna á bakvið en fékk ekki úr miklu að moða.

Í seinni hálfleik gekk liðinu illa að halda boltanum á sóknarhelmingi eftir að hafa leyst pressu Íra vel og náðu Írar því að halda pressu lengi á köflum sem uppskar mark í uppbótartíma.

Hvað gerist næst?

Liðin spila annan æfingaleik n.k. þriðjudag, aftur hér á Laugardalsvelli kl 17:00. Spennandi verður að fylgjast með hvort þjálfarar liðanna geri breytingar á byrjunarliði eða uppleggi.

Stelpurnar okkar fagna í kvöld.vísri/hulda

Glódís Perla: Vorum búin að tala um það fyrir leik að æfa okkur í hápressunni

Íslenska liðinu gekk vel að hápressa í fyrri hálfleik og unnu boltann oft hátt á vellinum.

"Við vorum búin að tala um það fyrir leikinn bæði að æfa okkur í hápressunni og svo náttúrulega þegar við sáum í upphitun að það væri svona mikill vindur þá er engin spurning um að pressa bara í 45 mínútur. Svo var það aðeins erfiðara í seinni hálfleik en mér fannst við samt vinna nokkra bolta."

Sömuleiðis gekk vel að spila boltanum út frá marki og að halda boltanum innan liðsins.

"Ja mér fannst okkur líða mjög vel með boltann og það sýndi sig í því að þegar einhver lenti undir pressu þá vorum við alltaf með einn eða tvo sendingamöguleika til að leysa. Alexandra var dugleg á miðjunni og náði að leysa og snúa flest af sér þegar við lentum í vandræðum á köntunum. Bara flott."

Glódís lagði upp fyrsta mark Íslands með frábærri sendingu aftur fyrir vörn Íra á Öglu Maríu.

"Vorum búin að tala um fyrir leikinn að í leikjunum í apríl á móti Ítalíu þá vorum við ekki að hlaupa nógu mikið bakvið línu, vorum allar að koma og bjóða okkur í fætur þannig við vorum búnar að tala um það í þessu verkefni að við þurfum að hlaupa á bakvið línu til að opna svæðin. Svo þegar þær standa svona hátt þá náttúrulega bara frábært hlaup hjá Öglu Maríu og geggjað "touch" og vel klárað."

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.