Innlent

Telur upp­setningu öryggis­mynda­véla á leik­völlum var­huga­verða

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Dóra Björt Guðjónsdóttir, varaformaður samgöngu- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar. 
Dóra Björt Guðjónsdóttir, varaformaður samgöngu- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar.  Vísir/Vilhelm

47 tælingarmál hafa verið tilkynnt til lögreglu frá árinu 2019 til dagsins í dag. Deildarsérfræðingur í upplýsinga- og áætlanadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu segir að við skoðun á alvarleika þessara mála í gegnum tíðina hafi innan við 10% málanna verið flokkuð sem miðlungs alvarleg eða alvarleg.

Mikil umræða hefur skapast um öryggi barna á leikvöllum eftir að tilraun var gerð til að nema sjö ára gamla stúlku á brott af leikvelli í Funafold í Grafarvogi í vikunni. Málið er nú komið á borð miðlægrar rannsóknadeildar lögreglu.

„Þessi mál geta verið skráð á mismunandi hátt eftir því hvað átti sér stað en flest þeirra eru skráð sem tilkynning um tælingu. Það eru allt frá því að vera tilkynningar þar sem bíll stoppar í nágrenni við barn og því líður óþægilega eða verður hrætt ef því það telur ökumann vera að elta sig, og allt upp í það að vera mál í ætt við þetta sem virðist hafa átt sér stað í Grafarvogi,“ segir Marta Kristín Hreiðarsdóttir, deildarsérfræðingur í upplýsinga- og áætlanadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við fréttastofu.

Minnir á mikilvægi þess að tilkynna málin til lögreglu

Hún segir að sem betur fer séu alvarleg tilvik sjaldgæf og í mörgum tilvikum finnist eðlilegar skýringar á málunum.

„Stundum höfum við fundið skýringar, t.d. að fólk sé að spyrja til vegar eða hefur átt erindi í nágrenninu sem skýrir ferðir þess,“ segir hún.

„Svo er það í sumum tilvikum að reynt hefur verið að grípa í börn. Ég man eftir tveimur til þremur málum síðustu árin þar sem börn hafa verið tæld eða numin á brott og í a.m.k. einu þeirra var gerandinn dæmdur vegna málsins. En svona mál eru afar fátíð,“ segir Marta.

Marta Kristín Hreiðarsdóttir, deildarsérfræðingur í upplýsinga- og áætlanadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.Vísir

Hún segir að lögregla líti tælingarmál alvarlegum augum og segir mikilvægt að fólk tilkynni slík tilvik til lögreglu. Faðir stúlkunnar, sem gerð var tilraun til að tæla í Grafarvogi, segist hafa heyrt frá fleiri foreldrum um svipuð mál. Marta segir þau mál hins vegar lítið hafa komið inn á borð lögreglu.

„Þær tilkynningar hafa ekki borist lögreglu og við höfum fengið örfáar svona tilkynningar úr þessu hverfi. Það skiptir líka miklu máli að taka svona umræðu við börn af yfirvegun. Ekki ræða við barnið í of miklu uppnámi, barnið getur orðið hrætt og haldið að það sé alltaf í yfirvofandi hættu. Það verður að kenna þeim að vara sig á þessum hættum eins og fólk kennir því að fara varlega í umferðinni,“ segir Marta. Sönnunargögn sjaldan til staðar sem geta leitt rannsókn áfram.

Sönnunargögn sjaldan til staðar sem geta leitt rannsókn áfram

Ævar Pálmi Pálmason, aðstoðaryfirlögregluþjónn í kynferðisbrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir tælingarmál erfið í rannsókn. Oft sé lítið um sönnunargögn og byggja þurfi rannsókn á frásögn barnsins.

„Jú, það getur alveg verið það vegna þess að það eru fáir til frásagnar, yfirleitt bara barnið. Sjaldan einhver sönnunargögn eða gögn sem geta leitt okkur eitthvað áfram,“ segir Ævar í samtali við fréttastofu.

Ævar Pálmi Pálmason, aðstoðaryfirlögregluþjónn kynferðisbrotadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.Vísir/Egill

Það hjálpi alltaf rannsókn málsins náist atburðir á mynd.

„Auðvitað að fenginn reynslu við rannsóknir sakamála, sama af hvaða tagi þau eru, þá er alltaf góð sönnunargögn ef tilraun til brots eða þess háttar næst á eftirlitsmyndavélar, sem sýnir yfirleitt svart á hvítu hvað gerðist, aðdragandann eða hvað gerist á eftir.“

Málin geti oft verið erfið í rannsókn og ekki sé hægt að ætlast til þess að ung börn geti munað smáatriði sem gætu hjálpað til við rannsókn málsins. Mikilvægt sé að fræða börn um fyrstu viðbrögð.

„Það er að segja strax frá, alveg um leið. Það er til dæmis kannski erfitt að segja fimm ára barni að taka niður bílnúmer, en ef það segir strax frá getur það aukið líkur á að foreldri geti brugðist við með einhverjum hætti eða einhver fullorðinn sem er nálægt,“ segir Ævar.

„En eins og var í þessu tilfelli er búið að fræða stelpuna og hún er að gera alveg hárrétt, hún bregst alveg hárrétt við. Í fyrsta lagi að hafna boðinu og svo að láta ekki tæla sig. Ég held að það ættu að vera fyrstu viðbrögð hjá öllum, að fræða krakkana og tala við þau.“

Oft sé lítið um handbær sönnunargögn í svona málum.

„Það er það sem við erum er það að reyna að tryggja þau sönnunargögn sem mögulega eru til staðar, til dæmis vitnisburður. Þetta eru fyrstu viðbrögðin, að kanna með eftirlitsmyndavélar, hvort einhver hafi orðið vitni að þessu og fá frásögn frá barninu sem varð fyrir þessu. Það eru fyrstu viðbrögðin og þá í raun líka það sem rannsóknin tekur til ef hún nær eitthvað lengra.“

Vonast til að setja upp öryggismyndavélar á næstu misserum

Íbúar í Grafarvogshverfi hafa í kjölfar málsins meðal annars kallað eftir svörum frá Reykjavíkurborg um það hvers vegna enn sé ekki búið að setja upp öryggismyndavélar í hverfinu, eftir að tillaga þess efnis var samþykkt í íbúakosningu árið 2019.

„Það var íbúakosning í Grafarvogi og kosið var um að setja upp myndavélar inn og út úr hverfinu. Reykjavíkurborg er í viðræðum við Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu og Neyðarlínuna um uppstillingu og rekstur á myndavélum í hverfinu og áframhaldandi uppsetningu á myndavélum í miðbænum,“ segir Eva Bergþóra Guðbergsdóttir, teymisstjóri samskiptateymis Reykjavíkurborgar, í samtali við Vísi.

Hún segir viðræðurnar komnar vel á veg og vonast sé eftir að þær klárist fljótlega. Þá standi vonir um að myndavélar verði settar upp á næstu mánuðum. Ekki sé þó um að ræða myndavélar á leikvöllum í hverfinu.

„Þetta mál fór í íbúakosningu en er ekki hefðbundið íbúakosningamál og var aðeins flóknara. Við þurfum að vera í samstarfi við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu og neyðarlínu um reksturinn á þessu. Eins og með flest tekur lengri tíma þegar verið er að gera eitthvað í fyrsta sinn,“ segir Eva.

Segir varhugavert að fjölga eftirlitsmyndavélum

Dóra Björt Guðjónsdóttir, varaformaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar, segir það ekki endilega þjóna tilgangi sínum að fjölga almennt eftirlitsmyndavélum til að koma í veg fyrir glæpi. Það skapi ímynd öryggis frekar en raunverulegt öryggi og komi ekki endilega í veg fyrir glæpina og færi þá frekar út fyrir sjónarsvið myndavélanna. Notkunin geti jafnvel verið varhugaverð. Þó verði að skoða hvert dæmi fyrir sig, umgjörð, tilgang og tryggja gegnsæi og upplýsingaöryggi.

„Ég hef ótrúlega mikla samúð með áhyggjum og vangaveltum foreldra. Það er auðvitað hræðilegt að barnið þitt upplifi svona óöruggar og óþægilegar aðstæður. Það er því eðlilegt að velta fyrir sér aukinni öryggisgæslu þegar svona mál koma upp,“ segir Dóra.

„Notkun eftirlitsmyndavéla virðist hins vegar almennt ekki endilega koma í veg fyrir ofbeldisglæpi heldur frekar á minni glæpi og þá flytja þá út fyrir sjónarsvið myndavélanna frekar en endilega að koma í veg fyrir þá. Til dæmis í Lundúnum, sem er eftirlitsmyndavéla-væddasta borg heims, þá fækkaði ekki glæpum en þeir færðust.“

Hún segir vandann felast í því að fjölgun eftirlitsmyndavéla geti skapað ímynd öryggis í stað raunverulegs öryggis. Hún segist almennt ekki hlynnt því að skapa eftirlitssamfélag.

Dóra Björt telur varhugavert að setja upp öryggismyndavélar á leikvöllum og skólalóðum.Vísir/Vilhelm

Það virðist ekki fækka glæpum heldur frekar færa þá inn á önnur svæði. Þó leggur hún áherslu á að skoða verði hvert dæmi fyrir sig eins og þetta sem hér um ræðir.

„Mögulega hefði það komið núna til gagns við að finna manneskjuna en notkun eftirlitsmyndavéla getur líka verið flókin vegna persónuverndarsjónarmiða og svo er hægt að misgreina fólk auðveldlega. Það eru dæmi um að saklaust fólk sé sakfellt vegna þess og því er þetta ekki alveg einfalt mál.“

Skoða þyrfti uppsetningu myndavélanna í samstarfi við lögreglu og neyðarlínu

Notkun myndavélanna geti komið að gagni við að leysa úr glæpum en komi ekki endilega í veg fyrir þá.

„Í þessu tilfelli er það ekki víst að eftirlitsmyndavélar hefðu komið í veg fyrir atvikið. Notkunin getur hjálpað til við að leysa mál en þá er skaðinn skeður. Það þýðir í raun sparnað fyrir lögregluna en lausnin gæti falist í aukinni vinnu, án tækninnar. Við þurfum að tryggja að lögreglan sé fullfjármögnuð og að velferðarkerfið grípi fólk og hafi forvarnargildi,“ segir Dóra.

„Sú vinna gæti vel verið þess virði fyrir samfélagið því fjölgun eftirlitsmyndavéla geti ógnað frelsi einstaklinga og jafnvel réttarríkinu sjálfu, aragrúi dæma erlendis frá sýnir að tækifæri til misnotkunar á slíkum eftirlitsbúnaði af hendi yfirvalda leiði oft til misnotkunar. Það er ekkert sem bendir til þess að það geti ekki gerst hér,“ segir Dóra.

Þó verði þó að athuga að skólalóðir og svæði þar sem börn eru að leik séu viðkvæm svæði og verði að huga vel að. Að koma í veg fyrir ofbeldisglæpi á slíkum stöðum skipti öllu máli.

„Hvað varðar fjölgun eftirlitsmyndavéla við skólalóðir þá er það eitthvað sem verður bara að skoða. Ég hef kallað eftir því að það verði sett í samhengi við stefnumótun þannig að það sé ekki tilviljunum háð og sé með vel skilgreint markmið,“ segir Dóra.

„Það þyrfti þá að vera gert í samstarfi við lögreglu og neyðarlínu og það sem myndi skipta gríðarmiklu máli er gegnsæi og skýrt og gott utanumhald um það hver myndu hafa aðgang að upplýsingunum, því þetta yrði viðkvæmt persónuupplýsingamál.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.