Innlent

Tálmunarmál Manuelu Óskar fyrir Hæstarétt

Árni Sæberg og Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifa
Mál Manuelu verður tekið fyrir í Hæstarétti.
Mál Manuelu verður tekið fyrir í Hæstarétti. Vísir/Vilhelm

Hæstiréttur Íslands hefur veitt ríkissaksóknara áfrýjunarleyfi vegna dóms Landsréttar í máli ákæruvaldsins á hendur Manuelu Ósk Harðardóttur. Manuela hefur áður verið sýknuð af ákæru fyrir héraðsdómi og Landsrétti.

Manuela Ósk sætir ákæru fyrir brot á 193. grein almennra hegningarlaga en henni hefur aldrei áður verið beitt í sams konar máli. Manuelu er gefið að sök að hafa svipt tvo barnsfeður sína valdi eða umsjón með börnum þeirra árið 2016. Annar barnsfeðranna er Grétar Rafn Steinsson, fyrrverandi atvinnumaður og landsliðsmaður í knattspyrnu.

Málið hófst þegar Manuela Ósk flutti með tvö börn sín til Los Angeles án þess að afla leyfi feðra þeirra. Fyrir dómstól í Los Angeles var úrskurðað að barnsfeðrum Manuelu yrðu fengin vegabréf barnanna og að þeir mættu flytja þau aftur til Íslands. Í því máli var Manuelu gefið að sök að hafa brotið gegn Haagsamningnum um ólögmætt brottnám barna.

Allir hæstaréttardómarar vanhæfir

Ákvörðun Hæstaréttar um að veita ríkissaksóknara áfrýjunarleyfi var tekin af fyrrverandi hæstaréttardómurum sem skipaðir voru vegna vanhæfis allra dómara réttarins. Halldór Þ. Birgisson, lögmaður Manuelu, segist ekki vita til þess að ástæða þess sé sú að dómararnir tengist málsaðilum á nokkurn hátt. Hann hafi hins vegar aldrei séð það að allir dómarar segi sig frá málinu. 

Hann segist bjartsýnn á að Hæstiréttur komist að sömu niðurstöðu í málinu og Landsréttur og héraðsdómur. 

Ákæruvaldið segir tilgang áfrýjunar vera að fá endurskoðun á niðurstöðu Landsréttar sem byggð er á skýringu eða beitingu lagareglna. Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að 193. grein hegningarlaga væri einungis ætlað að tryggja rétt barns til umsjár og verndar forsjárforeldris síns. Manuela Ósk fer með sameiginlegt forræði annars barna sinna, en óljóst er hvort forræði hins sé sameiginlegt, og var því sýknuð af ákærunni fyrir Landsrétti. 

Ákæruvaldið telur ofangreinda túlkun réttarins ranga og að beita megi ákvæðinu í tilvikum þegar um er að ræða sameiginlega forsjá og annað foreldrið sviptir hitt foreldrið valdi og/eða umsjá yfir barni. Þá telur ákæruvaldið jafnframt að beita eigi ákvæðinu óháð því hvort foreldrið sem sviptir hitt umsjá sé aðalumönnunaraðili barnsins eður ei.

Fréttin hefur verið uppfærð. Upphaflega var Manuela Ósk sögð fara með sameiginlegt forræði beggja barna sinna. Þá stóð einnig að Manuela hafi verið dæmd brotleg fyrir brot gegn Haagsáttmálanum. 


Tengdar fréttir

Manuela segist hafa misskilið reglurnar

Manuela Ósk Harðardóttir hafnar því að hafa á nokkurn hátt dregið úr eða tálmað með öðrum hætti að feður barnanna gætu átt í góðum samskiptum við börnin sín.

Barnsfeður Manuelu fengu börnin aftur heim til Íslands

Dómstóll í Los Angeles komst að þeirri niðurstöðu á miðvikudag að fyrirsætan og fatahönnuðurinn hefði brotið Haagsamninginn með því að flytja með börn sín tvö til Bandaríkjanna síðastliðið haust.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.