Fótbolti

Foden fékk sér Gazza-greiðslu fyrir EM

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tískufyrirmyndin Paul Gascoigne.
Tískufyrirmyndin Paul Gascoigne. getty/stu forster

Phil Foden er greinilega kominn í EM-gírinn en hann hefur látið aflita hárið á sér og kinkar þannig kolli til Pauls Gascoigne.

Gascoigne skartaði aflituðu hári á EM á Englandi 1996 þar sem heimamenn fóru í undanúrslit. Englendingar eru nú aftur á heimavelli, allavega í riðlakeppninni, og eins og 1996 verður einn með aflitað hár í enska hópnum.

Foden skellti sér til rakara í gær og lét aflita á sér hárið. Hann var reyndar ekki fæddur þegar EM fór fram á Englandi 1996 en hefur eflaust séð mark Gascoignes gegn Skotlandi og fleiri eftirminnileg atvik á mótinu oftar en einu sinni.

Hinn 21 árs Foden er ein helsta vonarstjarna Englendinga. Hann átti afar gott tímabil með Manchester City í vetur og var valinn besti ungi leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar.

Foden hefur leikið sex A-landsleiki og skorað tvö mörk. Þau komu bæði gegn Íslandi í Þjóðadeildinni í fyrra.

England hefur leik á EM á sunnudaginn þegar liðið mætir Króatíu á Wembley. Auk þeirra eru Skotland og Tékkland í D-riðli mótsins.


EM 2020 verður sýnt á Stöð 2 Sport EM 2020 sem er hluti af Sportpakkanum, Stóra pakkanum og Risapakkanum. EM 2020 verður einnig hægt að kaupa stakt á kr. 6.990 en fyrir viðskiptavini með aðra áskrift en ofangreindar frá Stöð 2 kostar áskriftin kr. 3.990.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×