Innlent

Stjörnu-Sævar dúsir í bólusetningu í miðjum sólmyrkva

Snorri Másson skrifar
Stjörnu-Sævar fær Janssen á fimmtudaginn, karl fæddur 1984.
Stjörnu-Sævar fær Janssen á fimmtudaginn, karl fæddur 1984. Vísir

Sævar Helgi Bragason var í dag boðaður í bólusetningu á fimmtudaginn, sem kann að reynast óheppilegur dagur fyrir stjörnufræðing til að fara í bólusetningu.

Það er nefnilega sólmyrkvi á fimmtudaginn og fyrirséð að tunglið muni hylja sólina um 70% af fleti hennar séð frá Reykjavík. Þessu er vert að fylgjast náið með hafi maður færi á því.

Á fimmtudaginn er þó, ef til vill blessunarlega, hætta á að skýin skemmi fyrir, þannig að bólusetning verður ekki til þess að Stjörnu-Sævar missi af atburðinum. Hann telur bólusetningu enda mun mikilvægari viðburð en nokkurn náttúruviðburð.

Sævar er bólusettur klukkan 9.20, rétt um það leyti sem sólmyrkvinn hefst.

„Bólusetning er að sjálfsögðu öllu mikilvægari, þannig að ég mæti þangað. Síðan ætla ég að reyna að fylgjast með þessu ef veður leyfir en veðurspáin bendir því miður ekki til þess. Annars tæki ég bara gleraugun með í röðina og fylgdist með þaðan,“ segir Sævar í samtali við Vísi.

Hann hvetur alla aðra til að skella sér í bólusetningu, sem hann segir eitt helsta afrek vísinda á síðari tímum.

Í Reykjavík hefst deildarmyrkvinn kl. 09:06 að morgni þegar tunglið byrjar að „bíta sneið“ úr sólinni. Þar nær hann hámarki kl. 10:17 og lýkur kl 11:33. Tímasetningnar eru lítið eitt mismunandi fyrir mismunandi staði á landinu.

Komi til þess að sólmyrkvinn sjáist vel úr borginni minnir Sævar fólk á að setja upp hlífðargleraugun ef það ætlar að fylgjast með deildarmyrkvanum á fimmtudag.

Deildarmyrkvinn 10. júní 2021 er sá mesti sem sést hefur frá Íslandi síðan 20. mars 2015 . Þá varð líka deildarmyrkvi sem sást frá landinu öllu. Sá myrkvi var raunar mun meiri en nú. Þá huldi tunglið 97% af sólinni á móti um 69% nú, segir á Stjörnufræðivefnum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.