Innlent

Sóttu kalda og blauta göngu­menn á Fimm­vörðu­háls

Kjartan Kjartansson skrifar
Jeppi björgunarsveita sem fór upp hálsinn frá Skógum til að aðstoða tvo göngumenn í vandræðum á Fimmvörðuhálsi.
Jeppi björgunarsveita sem fór upp hálsinn frá Skógum til að aðstoða tvo göngumenn í vandræðum á Fimmvörðuhálsi. Landsbjörg

Björgunarsveitarfólk af Suðurlandi fóru gangandi og á snjósleðum að sækja tvo göngumenn í vandræðum á Fimmvörðuhálsi í gærkvöldi. Mennirnir voru ekki slasaðir en voru orðnir blautir og kaldir og treystu sér ekki til að halda förinni áfram.

Þegar björgunarsveitarfólk kom að mönnunum um klukkan 18:00 voru þeir við Heljarkamb. Aðstoðaði það mennina yfir kambinn og upp Bröttufönn þar sem snjósleðar björgunarsveitarfólksins urðu eftir. Fengu mennirnir far á sleðunum að björgunarsveitarbílum neðar á gönguleiðinni.

Þegar bílarnir lögðu af stað til byggða rétt fyrir klukkan 19:00 voru mennirnir allir að hressast, að því er segir í tilkynningu frá Landsbjörg.

Björgunarsveitir sinntu fjórum öðrum útköllum í gær. Í tvígang voru þær kallaðar út vegna bíla sem sátu fastir, annars vegar nálægt Vík og hins vegar á Seyðisfirði. Við Hjörleifshöfða dró björgunarsveitarfólk bíl sem sat fastur upp á þurrt og við Seyðisfjörð kom það bílstjóra til aðstoðar sem festi bíl sinn í snjó á Skálanesi.

Í Bolungarvík brást björgunarsveit við útkalli vegna rekalds sem var á floti í innsiglingunni í höfninni og á Húsavík sigldi björgunarsveitarfólk á báti með lækni til móts við hvalaskoðaunarbát með veikan farþega um borð.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.