Innlent

Sýknuð af því að hafa sigað Dober­mann-hundi á aðra konu

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Konan var sýknuð af því að hafa sigað Dobermann-hundi á hina konuna.
Konan var sýknuð af því að hafa sigað Dobermann-hundi á hina konuna. Vísir/Getty

Landsréttur sýknaði á dögunum konu af því að hafa sigað Dobermann-hundi á aðra konu og sparkað í andlit hennar, en héraðsdómur hafði áður sakfellt hana fyrir þessi atriði. 

Landsréttur staðfesti þó sakfellingu héraðsdóms yfir konunni að öðru leyti og dæmdi konuna í skilorðsbundið fangelsi.

Mál á hendur konunni var höfðað í september 2019, en hún var þá 26 ára. Í ákæru var henni gefið að sök að hafa ráðist á 33 ára gamla konu með því að siga á hana hundi af tegundinni Dobermann, rífa í hár hennar og draga hana þannig niður í jörðina.

Þá var henni gefið að sök að hafa veist að hinni konunni með því að sparka í eða traðka á brjóstkassa hennar minnst tvisvar sinnum og sparka minnst einu sinni í andlit hennar. Konan var sakfelld fyrir öll atriði ákærunnar í héraði, fyrir utan að draga hina konuna í jörðina.

Landsrétti þótti ekki sannað þannig að hafið væri yfir skynsamlegan vafa að konan hefði sigað hundinum á hina eða að hann hefði glefsað og klórað í hana, eins og haldið var fram í ákæru. Þá taldi dómurinn ósannað að hún hefði sparkað í andlit brotaþola, en staðfesti héraðsdóminn að öðru leyti.

Háttsemi konunnar var heimfærð undir 218. grein almennra hegningarlaga og telst því til meiri háttar líkamsárásar. Konan var því dæmd til fjögurra mánaða fangelsisvistar sem er skilorðsbundin til tveggja ára.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.