Innlent

Ís­land verður síðasta þróaða ríkið til að endur­­heimta fyrri efna­hags­­styrk

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Mun meira at­vinnu­leysi er spáð á Ís­landi á næsta ári en þeim löndum sem eiga að ná sömu vergu lands­fram­leiðslu og fyrir far­aldurinn á næstu mánuðum.
Mun meira at­vinnu­leysi er spáð á Ís­landi á næsta ári en þeim löndum sem eiga að ná sömu vergu lands­fram­leiðslu og fyrir far­aldurinn á næstu mánuðum. vísir/vilhelm

Ekkert þróað ríki verður jafn lengi að endur­heimta fyrri efna­hags­styrk eftir heims­far­aldurinn og Ís­land, sam­kvæmt nýrri spá OECD. Við matið er verg lands­fram­leiðsla á mann notuð sem mæli­kvarði á þetta.

Sam­kvæmt spánni munu til dæmis löndin Banda­ríkin, Ír­land, Japan og Noregur endur­heimta sama efna­hags­styrk og fyrir far­aldurinn á næstu mánuðum. Ís­land á hins vegar ekki að ná þeim á­fanga fyrr en eftir rúm tvö ár, á þriðja árs­fjórðungi ársins 2023.

Spá OECD um það hvenær þróuð ríki ná aftur fyrri efnahagsstyrk sínum.oecd

Í skýrslunni segir að þegar at­vinnu­úr­ræðum stjórn­valda ljúki eftir sumarið sé gert ráð fyrir að at­vinnu­leysi verði 8 prósent en það eigi eftir að minnka niður í 7,6 prósent á næsta ári.

Það er gríðar­lega mikið at­vinnu­leysi en til saman­burðar við ríki sem eiga að ná aftur sömu vergu lands­fram­leiðslu á mann á næstu mánuðum er að­eins spáð 4 prósent at­vinnu­leysi í Noregi á næsta ári og 4,3 prósent í Banda­ríkjunum.

Verg landsframleiðsla á mann:

Verg landsframleiðsla (VLF) innifelur allar vörur og þjónustu sem framleidd er innan hvers ríkis árlega, að frádregnum þeim vörum sem notaðar eru við framleiðsluna. Hér er VLF deilt jafnt á alla íbúa landa.



Stjórnvöld beini aðgerðum að verst stöddu heimilunum

Í skýrslunni eru ís­lensk stjórn­völd þá hvött til að beina stuðnings­að­gerðum sínum beint að þeim sem þurfa mest á þeim að halda, eins og heimilum sem eru illa stödd fjár­hags­lega.

Verg lands­fram­leiðsla á Ís­landi á síðan að aukast um 2,8 prósent í ár og 4,7 prósent árið 2022. Gert er ráð fyrir að ferða­þjónustan fari að taka við sér á næstu mánuðum og að sjávar­út­vegurinn haldi á­fram að skila inn tekjum. Þá er gert ráð fyrir að út­gjöld heimilanna eigi eftir að aukast á næstu mánuðum.

Sömu vergu lands­fram­leiðslu og þekktist fyrir far­aldurinn verður þó ekki náð fyrr en á síðari hluta þar­næsta árs.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×