Innlent

Ís­lensku öndunar­vélarnar komnar til Ind­lands

Eiður Þór Árnason skrifar
Hitesh Rajpal, sviðsstjóri hjá indversku utanríkisþjónustunni, og Kristín Eva Sigurðardóttir sendiráðsfulltrúi hjá sendiráði Íslands í Delí tóku á móti sendingunni í morgun. 
Hitesh Rajpal, sviðsstjóri hjá indversku utanríkisþjónustunni, og Kristín Eva Sigurðardóttir sendiráðsfulltrúi hjá sendiráði Íslands í Delí tóku á móti sendingunni í morgun.  Aðsend

Fimmtán öndunarvélar og tólf þúsund töflur af veirulyfinu Favipiravir lentu í Delí á Indlandi snemma í morgun að staðartíma. Um er að ræða gjöf frá Landspítala og íslenskum stjórnvöldum vegna alvarlegrar stöðu kórónuveirufaraldursins á Indlandi.

Vika er síðan sendingin fór af stað frá Íslandi en ríkisstjórnin ákvað í síðasta mánuði að gefa öndunarvélarnar þegar ljóst var að ekki væri þörf fyrir þær hér á landi. Indversk stjórnvöld sjá svo um að ráðstafa þeim eftir þörfum. Greint er frá afhendingunni á vef utanríkisráðuneytisins.

Um 164 þúsund kórónuveirutilfelli hafa að jafnaði greinst daglega á Indlandi síðastliðna viku en í kringum 400 þúsund greindust á verstu dögunum í maímánuði. Um 335 þúsund dauðsföll eru skráð vegna faraldursins og hafa heilbrigðisstofnanir átt erfitt með að ráða við mikinn fjölda sjúklinga.

Viku tók að koma sendingunni á áfangastað.Aðsend

„Þetta er til marks um hlýleg og vinsamleg tengsl okkar. Við tökum fagnandi sendingu með fimmtán öndunarvélum og tólf þúsund töflum af Favipiravir sem bárust frá Íslandi snemma í morgun,“ segir í tísti frá indverskum stjórnvöldum. Fulltrúi þeirra og fulltrúi íslenska sendiráðsins í Delí mættu á flugvöllinn til að taka við sendingunni. 

Öndunarvélarnar eru hluti af stórri gjöf sem Landspítali fékk á síðasta ári frá velvildarfólki spítalans. Veirulyfið Favipiravir var þróað sem meðferð við inflúensu en hefur notað í meðferð við Covid-19 eftir að í ljós kom að lyfið hamli gegn eftirmyndum erfiðaefnis veirunnar.

Sendingin frá Íslandi var flutt til Indlands á vegum samhæfingar- og stjórnstöð almannavarna Evrópusambandsins sem Ísland tekur þátt í á grundvelli EES-samstarfsins.


Tengdar fréttir

Yfir 300 þúsund nú látist af völdum Covid-19 á Indlandi

Yfir 300 þúsund hafa nú látist af völdum Covid-19 á Indlandi samkvæmt upplýsingum frá þarlendum heilbrigðisyfirvöldum. Sérfræðingar vara við því að raunverulegur fjöldi dauðsfalla geti verið mun hærri þar sem mörg þeirra séu ekki skráð með fullnægjandi hætti.

Íslendingar gefa Indverjum öndunarvélar

Í ljósi alvarlegrar stöðu kórónuveirufaraldursins á Indlandi hafa þarlend stjórnvöld þegið boð íslenskra stjórnvalda um að senda 17 öndunarvélar til Indlands, segir í tilkynningu frá Stjórnarráðinu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×