Innlent

Lykilatriði að notendur samfélagsmiðla viti og samþykki að flokkarnir séu að vinna með upplýsingar

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar.
Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar. Vísir/Egill

Póst- og fjarskiptastofnun hafa borist kvartanir vegna óumbeðinna símtala í tengslum við prófkjör sem nú fara fram. Forstjóri Persónuverndar segir að stofnunin muni fylgjast vel með notkun stjórnmálaflokka á samfélagsmiðlum fyrir kosningar. Fólk þurfi að samþykkja vinnslu á persónuupplýsingum sem eru fengnar þaðan.

Samkvæmt upplýsingum frá Póst- og fjarskiptastofnun hefur fólk kvartað vegna úthringinga eða skilaboða í tengslum við prófkjör sem fara fram þessa dagana. Stofnunin veitir ekki upplýsingar um aðila slíkra mála fyrr en að lokinni málsmeðferð en flokkarnir sem hafa staðið í prófkjörs- eða forvalsbaráttu undanfarið eru Vinstri Grænir og Sjálfstæðisflokkurinn, þar sem nú fer fram er hörð barátta um efsta sæti í Reykjavík á milli Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra og Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðhera.

Prófkjörið fer fram á föstudag og laugardag og hafa þau og stuðningsmenn þeirra stundað úthringingar á liðnum dögum. Kvartanir vegna óumbeðinna fjarskipta heyra undir póst- og fjarskiptastofnun en Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, segir skýrar reglur gilda um slíkt.

„Til dæmis ef við komandi er bannmerktur í þjóðskrá eða X-merktur í símaskrá þá þarf að virða það. Ef viðkomandi vill ekki láta hringja í sig þarf að virða þá ósk,“ segir Helga.

Hún segir frambjóðendur og stuðningsmenn hafa nokkuð rúmar heimildir til þess að nota félagatal eigin flokks til úthringinga þrátt fyrir að stjórnmálaskoðanir teljist viðkvæmar persónuupplýsingar.

„En það er hins vegar þannig að innganga í stjórnmálaflokk er ekki alveg skýr og þess vegna skiptir miklu máli að félagsmenn séu almennt fræddir um það hvernig og hvenær þeir geta átt von á símtölum og hvernig flokkurinn hefur ákveðið að fara með persónuupplýsingar sinna félagsmanna. Alltaf mega félagsmenn líka hafna því að haft sé samband við þá.“

Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fer fram 4. og 5. júní.vísir/Sigurjón

Frambjóðendur hafa verið áberandi á samfélagsmiðlum og líkt og haft er eftir kosningastjórum Áslaugar Örnu og Guðlaugs Þórs á Vísi hefur mesta áherslan verið lögð þá í kosningabaráttunni. 

Persónuvernd skoðaði ítarlega notkun flokkanna á samfélagsmiðlum fyrir síðustu kosningar og vann álit þar sen talið var að ekki hafi verið farið nógu vel með vinnslu persónuupplýsinga.

„Samfélagsmiðlar hafa opnað fyrir nýja möguleika til þess að ná til fólks og það er að mörgu að huga. En grundvallaratriðið er að það þarf að vera ljóst að fólk viti að það sé verið að vinna með upplýsingar um það á samfélagsmiðlum og ef þeir sem eru að vinna með þessar upplýsingar eru að gefa sér að viðkomandi hafi einhverja ákveðna pólitíska skoðun þarf að vera búið að fá samþykki ef það á að vinna eitthvað frekar með þessar upplýsingar.“

Hún segir það forgangsmál hjá stofnuninni að fylgjast með notkuninni í aðdraganda næstu kosninga.

„Fólk sem fer ekki að áliti persónuverndar er að taka heilmikla áhættu með að vera ekki að starfa í samræmi við persónuverndarlög. Niðurstaða í kosningum og það að kosningar fari rétt og sanngjarnt fram er eitthvað sem skiptir höfuðmáli í hverju lýðræðissamfélagi. Þannig þetta verður áfram forgangsmál,“ segir Helga.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×