Innlent

Ætla ekki að tjá sig um afsökunarbeiðnina

Samúel Karl Ólason skrifar
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja.
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja. Vísir/Vilhelm

Stjórnendur Samherja ætla sér ekki að útskýra frekar yfirlýsingu þeirra þar sem beðist var afsökunar á harkalegum viðbrögðum þeirra við umfjöllun um fyrirtækið og málefni þess í Namibíu og víðar. Yfirlýsingin, sem send var út í gær, hefur vakið spurningar.

Í svari við fyrirspurn fréttastofu um viðtal við Þorstein Má Baldvinsson, forstjóra Samherja, segir að yfirlýsingin hafi verið skýr og afdráttarlaus og hún hafi fallið í góðan jarðveg. Ekki standi til að veita viðtöl henni tengdri eða fjalla um hana frekar að svo stöddu.

Meðal annars, kom fram í yfirlýsingu Samherja í gær, sunnudag, að vegið hefði verið að starfsheiðri með ósanngjörnum hætti og að erfitt gæti verið að bregðast ekki við slíku.

Þá var vísað í fréttir af samskiptum skæruliðadeildarinnar svokölluðu og að þau hefðu verið persónuleg samskipti milli starfsfélaga og vina og ekki hafi verið búist við að hún yrði opinber.

Í lokin stóð að stjórnendur fyrirtækisins hefðu brugðist of harkalega við umfjöllun og ljóst væri að of langt hafi verið gengið í þeim viðbrögðum.

„Af þeim sökum vill Samherji biðjast afsökunar á þeirri framgöngu,“ stóð í yfirlýsingunni.

Sjá einnig: Samherji biðst afsökunar

Yfirlýsingu þessari var tekið fagnandi af starfsmönnum Ríkisútvarpsins, sem áðurnefnd viðbrögð beindust að mestu gegn, en þeir segjast ekki skilja hana. Heiðar Örn Sigurfinnsson, varafréttastjóri Ríkisútvarpsins, sagði að ef til vill hefði verið betra ef það væri skýrara „hver væri að biðjast afsökunar á hverju.“

Sagt var frá því í dag að lögmaður á vegum Samherja sendi bréf til Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, í apríl. Þar var þess óskað að hún útskýrði nákvæmlega hvað hún átti við þegar hún sagði á þingi að fyrirtækið hefði gengið of langt í viðbrögðum við umfjölluninni.

Þá hafði hún verið spurð út í viðbrögð forsvarsmanna Samherja við umfjöllun um fyrirtækið og málefni þess í Namibíu í fjölmiðlum.

Bréfið var sent þann 27. apríl af lögmanninum Arnari Þór Stefánssyni og var það degi eftir að Lilja létt ummælin um Samherja falla á þingi. Fór Arnar fram að hún útskýrði nákvæmlega hvað hún hefði átt við.

Í áðurnefndu svari Samherja við viðtalsfyrirspurn er einnig þakkað fyrir áhugann á málefnum Samherja og bent á að á vef félagsins megi lesa um vel heppnaða veiðiferð Kaldbaks EA 1, sem landaði í gær með fullfermi, 190 tonn, eftir einungis fimm daga veiðiferð. Þrettán manna áhöfn skipsins hafi verið við veiðar í þrjá og hálfan sólarhring.

Að mestu var um þorsk og ufsa að ræða og verður fiskurinn kominn til erlendra viðskiptavina Samherja síðar í þessari viku.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.