Innlent

Handa­hófs­kennd bólu­setningar­boðun eftir ár­gangi og kyni

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Frá bólusetningaraðstöðu í Laugardalshöll. Árgangar milli 1976 og 2005 verða boðaðir í bólusetningu af handahófi. Boðun eftir árgöngum verður kynjaskipt.
Frá bólusetningaraðstöðu í Laugardalshöll. Árgangar milli 1976 og 2005 verða boðaðir í bólusetningu af handahófi. Boðun eftir árgöngum verður kynjaskipt. Vísir/Vilhelm

Boðanir í handahófskenndar bólusetningar á höfuðborgarsvæðinu hefjast í þessari viku. Dregið verður um árganga sem verður skipt upp eftir kyni. Framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins segir að stuðst verði við gamaldags kerfi þegar dregið verður.

Nú er unnið að því að klára þá forgangshópa sem á eftir að bólusetja. Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslunni, segir í samtali við fréttastofu að þegar þeirri vinnu ljúki verði hafist handa við handahófskenndar boðanir í bólusetningu.

„Þá skiptum við upp öllum árgöngunum, þetta verða sirka 30 árgangar sem við verðum að vinna með, frá 1976 upp í 2005. Við skiptum þeim eftir kyni og vinnum svo handahófskennt niður þann lista,“ segir Ragnheiður.

Næstum dregið úr hatti

Því verði dregið úr alls 60 hópum, tveimur fyrir hvern árgang. Reynt verði að draga sem jafnast úr hópi karla og kvenna. Ekki verður stuðst við hugbúnað eða nokkurs konar tölvukerfi þegar bólusetningarröð árganganna verður ákvörðuð, heldur verða miðar dregnir úr hatti, eða því sem næst.

„Við ákváðum að fara ekki hugbúnaðarleiðina, heldur bara vera gamaldags. Við erum bara með árgangana í sitthvoru boxinu, karlar og konur, og þá er reynt að draga jafn marga miða úr konum og körlum. Þannig að þetta er mjög gamaldags og einfalt kerfi hjá okkur.“

Ragnheiður segist vona að búið verði að bjóða öllum á bólusetningaraldri fyrsta skammt um mánaðamótin júní/júlí, þó ekki sé víst hvort búið verði að fullbólusetja öll við það tímamark.

Hér að neðan má sjá tölfræði yfir bólusetningar hér á landi, af vef Almannavarna og Landlæknis.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×