Innlent

Breytingar gerðar á ó­vissu- og hættu­stigum vegna hættu á gróður­eldum

Atli Ísleifsson skrifar
Áfram er óvissu- eða hættustig vegna hættu á gróðureldum á norðanverðu landinu.
Áfram er óvissu- eða hættustig vegna hættu á gróðureldum á norðanverðu landinu. Almannavarnir

Áfram verður í gildi hættustig vegna hættu á gróðureldum á Vesturlandi, Vestfjarðakjálkanum og Norðurlandi vestra eða frá Hvalfjarðarbotni í suðri að Tröllaskaga í norðri. Óvissustig vegna hættu á gróðureldum er áfram í umdæmi lögreglustjórans á Norðurlandi eystra, það er frá Siglufirði og austur á Sandvíkurheiði. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra sem send er út í kjölfar fundar með fulltrúum slökkviliða, lögreglu og almannavarna til að fara yfir stöðu vegna hættu á gróðureldum af völdum yfirstandandi þurrka.

„Í framhaldi af fundinum þá hefur ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórana á Suðurlandi, Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðinu ákveðið að aflétta almannavarnastigum á svæðinu frá Austur-Skaftafellssýslu að Hvalfjarðarbotni. Áfram verður í gildi hættustig vegna hættu á gróðureldum á Vesturlandi, Vestfjarðakjálkanum og Norðurlandi vestra eða frá Hvalfjarðarbotni í suðri að Tröllaskaga í norðri.

Óvissustig vegna hættu á gróðureldum er áfram í umdæmi lögreglustjórans á Norðurlandi eystra, það er frá Siglufirði og austur á Sandvíkurheiði.

Í dag er útlit fyrir rigningu með köflum á suðaustur, suður og suðvesturlandi, en á Vesturlandi og Vestfjörðum fer ekki að rigna að ráði fyrr en á laugardagseftirmiðdag eða laugardagskvöld.

Ekki er spáð mikilli úrkomu á norðanverðu landinu, en þó gætu verið stöku skúrir þar, einkum á sunnudag.

Almenningur er áfram hvattur til að sýna aðgát með opinn eld á því svæði sem enn er á óvissu- og hættusvæði, ekki síst þar sem gróður er þurr. Ef fólk verður vart við gróðurelda á strax að hringja í 112,“ segir í tilkynningu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×