Erlent

Frambjóðendur myrtir í massavís í aðdraganda kosninga í Mexíkó

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá líkvöku Ölmu Barragán, sem myrt var á þriðjudaginn.
Frá líkvöku Ölmu Barragán, sem myrt var á þriðjudaginn. AP/Armando Solis

Minnst 34 frambjóðendur í komandi kosningum í Mexíkó hafa verið myrtir á undanförnum dögum. Andrés Manuel López Obrador, forseti Mexíkó, segir glæpagengi vera að myrða frambjóðendur til að hræða fólk frá því að taka þátt í kosningunum, sem haldnar verða þann 6. júní.

Nú síðast var Alma Barragán, sem hafði boðið sig fram til borgarstjóra í Moroleón, myrt á þriðjudaginn. Moroleón er í Guanajuato-héraði þar sem glæpagengi hafa valdið miklum usla undanfarin ár.

Það sem af er þessu ári hafa nærri því 1.300 morð verið fram í Guanajuato, svo vitað sé, samkvæmt AFP fréttaveitunni. Fréttaveitan hefur eftir eftirlitsaðilum í Mexíkó að alls 88 stjórnmálamenn hafa verið myrta frá því kosningaferlið hófst í september.

Af öllum þeim 88 morðum hafa handtökur átt sér stað vegna þriggja þeirra.

Barragán birti myndband á Facebooksíðu sinni þar sem hún sagði hvar hún var og hvatti kjósendur til að koma og ræða við sig. Skömmu seinna var hún skotin til bana.

Sérfræðingar sem blaðamenn AP fréttaveitunnar ræddu við segja glæpagengi Mexíkó vilja frambjóðendur sem eru hliðhollir þeim í ráðhúsum Mexíkó. Þannig geti þeir sloppið við afskipti lögreglunnar og kúgað fé frá fyrirtækjum og hinu opinbera.

AFP segir að rúmlega 150 stjórnmálamenn hafi verið myrtir í forsetakosningunum 2018. Nú stendur til að kjósa þingmenn, fimmtán ríkisstjóra og þúsundir sveitarstjórnarmanna.

Frambjóðandi segist ítrekað fá hótanir

Blaðamaður fréttaveitunnar ræddi við Julio Gonzales, sem hefur boðið sig fram til borgarstjóra Dolores Hidalgo, sem einnig er í Guanajuato. Þetta er í annað sinn sem hann býður sig fram og hann segist ítrekað fá hótanir.

Hann segist hafa verið eltur af vopnuðum mönnum og að bensínsprengjum hafi verið kastað að húsi hans.

Gonzales segist þó hvergi banginn og hann muni ekki hætta aðkomu sinni að pólitík.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×