Lífið

„Það hefur áhrif á mann að vera öðruvísi“

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Brynja Dan Gunnarsdóttir útskrifaðist sem verkfræðingur árið 2011 og er eigandi verslunarinnar Extraloppan, sem hjálpar fólki að selja notuð föt. 
Brynja Dan Gunnarsdóttir útskrifaðist sem verkfræðingur árið 2011 og er eigandi verslunarinnar Extraloppan, sem hjálpar fólki að selja notuð föt.  Aldís Páls

„Mér líður eins og þetta sé kannski eðlileg framvinda. Margt sem ég hef gert bæði meðvitað og ómeðvitað hefur verið í átt að þessu augnabliki síðustu ár,“ segir Brynja Dan Gunnarsdóttir um ákvörðun sína að hella sér út í pólitík.

Í vikunni var tilkynnt að Brynja mun skipa annað sæti á lista Framsóknarflokksins í Reykjavík norður í komandi þingkosningum í haust. Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra skipar fyrsta sæti listans.

„Það sem ég brenn fyrir í lífinu eru málefni barna og mér finnst við alltaf geta gert betur þar. það tengja líklega flestir við það því við annað hvort eigum börn eða vorum börn,“ segir Brynja en hún á sjálf einn strák.

„Ég sit í stjórn Barnaheilla og er búin að vera þar í fjögur ár. Svo var ég líka að byrja í stjórn íslenskrar ættleiðingar.“

Þótti vænt um símtalið

Brynja er sjálf ættleidd frá Sri Lanka og sagði sögu sína í þáttunum Leitin að upprunanum á Stöð 2 fyrir nokkrum árum. Áhorfendur fengu þá að fylgjast með því þegar Brynja hitti líffræðilega móður sína eftir þrjátíu ára aðskilnað.

Það var Ásmundur Einar sem hvatti Brynju til þess að fara í framboð, en Brynja segir að þegar hann hringdi í hana einn mánudaginn hafi samtalið ekki strax byrjað þannig.

„Hann ætlaði bara að hlera mig aðeins af því að hann hefur tekið eftir því sem ég er að gera og því sem ég stend fyrir. Mér þótti ótrúlega vænt um það símtal og fór í kjölfarið og hitti hann. Svo bara endar það á því að ég er á leiðinni í framboð,“ 

segir Brynja og hlær. 

Pólitískar skoðanir erfast ekki 

Það kom engum í kringum Brynju mikið á óvart að hún vildi komast á þing, en þó voru einhverjir sem voru hissa yfir því að hún hefði valið Framsókn.

„Ég kem úr mjög rauðri fjölskyldu, kratafjölskyldu úr Hafnarfirðinum,“ útskýrir Brynja. Hún segist vera Hafnfirðingur í grunninn þó að hún búi í dag í Garðabænum og hafi búið í því bæjarfélagi í meira en fimmtán ár.

„Ég er alin upp í kratakommúnu. Mamma bauð sig reyndar fram held ég fyrir Kvennalistann á sínum tíma en bræður hennar hafa allir verið í Samfylkingunni og afi í Alþýðuflokknum þegar að hann var og hét. Ég er miðjumanneskja og flokkurinn er ekkert annað en fólkið sem er í honum,“ útskýrir Brynja.

„Það er bara þannig að pólitískar skoðanir erfast ekki. Hver og einn verður bara að fá að finna sinn stað svolítið, til að vaxa og dafna. Ég einhvern veginn held að ég hafi fundið þann stað. Mér lýst ótrúlega vel á alla sem ég hef hitt og við erum öll ótrúlega spennt fyrir komandi tímum. Mér finnst líka sterkt hjá þeim að sækja sér alls konar fólk með alls konar sögu.

Mín ástríða eru málefni barna. Ég elst upp hjá mömmu sem að starfar fyrir Barnavernd og Félagsmálastofnun. Það er alltaf mikið af unglingum á heimilinu og ég kynnist þessu starfi fyrst þar. Svo eins og einhverjir vita er ég foreldralaus þegar ég er að verða átján ára og mér finnst vanta að kerfið grípi okkur betur á mörgum stöðum. 

Ég upplifði það svolítið þá og sé að það hefði mátt hlúa betur að manni svona eftir á að hyggja. Mig langar að breyta ótrúlega mörgu þar fyrir allar Brynjurnar í framtíðinni. Að það sé auðveldara að sækja sér aðstoð því við fæðumst með svo ótrúlega misjöfn spil á hendi. Þegar maður lendir í svona aðstæðum á maður að geta sótt sér ýmis konar tæki og tól,“ segir Brynja.

Brynja segir að það sem hafi mótað hana hvað mest sé móðurhlutverkið.Aldís Páls

Jöfn tækifæri fyrir öll börn

„Ég fór svolítið í að búa til einhverskonar plan. Ég bjó mér til fjölskyldu úr nánasta fólkinu mínu og vinum en mig langar að samfélagið okkar gefi fólki og börnum þessi verkfæri svo þau geti síðan spilað út sinni allra bestu hendi þegar að því kemur. Að við höldum utan um þetta og gerum það vel. Það er svolítið ástríðan mín, þessi heimur. Einnig börnin okkar í menntakerfinu og menntakerfið okkar í heild. Ég er búin að fylgjast mikið með Ása og Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra í dágóðan tíma og þau eru að gera alveg ofboðslega flotta hluti. Þau eru að fara svo vel með öll málefnin og vilja það sem við öll viljum, að fólkið í landinu okkar sé hamingjusamt. Að við séum ánægð og að við séum að styðja við þessa hópa,“ segir Brynja.

„Ég er mjög réttsýn í grunninn og langar að öll börnin okkar hafi jöfn tækifæri. Það lætur hjartað mitt slá hraðar. Ég trúi því af öllu mínu hjarta að öll börn séu okkar börn.“

Ekki sjálfgefið að tilheyra

Brynja var kynnt til leiks innan flokksins í þessari viku og var hún ánægð með meðbyrinn og líst sjálfri ótrúlega vel á uppröðunina fyrir komandi kosningar.

„Fólkið sem ég hef hitt í Framsókn eru með ótrúlega falleg markmið og fallega framtíðarsýn. Vilja efla landið okkar, hvort sem það er í innlendri matvælaframleiðslu eða að gera betur þegar kemur að Grænu skrefunum. Ég á Extraloppuna og síðustu tvö ár hafa farið í það að koma því á laggirnar og kynnast því að eiga og reka fyrirtæki og mér fannst ég eiga heima þarna með þeim,“ segir Brynja um ákvörðun sína um að ganga til liðs við Framsókn.

„Það er ekkert sjálfgefið að tilheyra og mér var tekið alveg dásamlega. Því er fagnað að við séum ekki öll nákvæmlega eins og með nákvæmlega sömu skoðanir, þó við séum öll með sömu sýnina í megin atriðum.“

Brynja er einn eiganda verslunarinnar Extraloppunnar en hún gengur út á að selja notaðar flíkur og gefa þeim þannig nýtt líf og huga þannig að umhverfinu.

„Ég er að stíga mín fyrstu skref í pólitík,“ segir Brynja um þetta verkefni. Hún segir að hún hræðist ekki umtal en hefur þó alltaf lagt það í vana sinn að lesa ekki athugasemdakerfi fréttamiðla.

„Ég er ekki þekkt fyrir að liggja á skoðunum mínum og er með nóg af þeim svo sem,“ segir Brynja og hlær. „Nú fæ ég kannski þennan vettvang til þess að láta verkin tala. Það er minn drifkraftur, að nú get ég vonandi farið að gera eitthvað og breyta einhverju.“

Elskar málefnalegar samræður

Brynja er með stóran fylgjendahóp á samfélagsmiðlum og nýtir þann vettvang mikið til þess að fjalla um málefni, meðal annars tengd börnum. Má þar nefna lestur drengja, ættleiðingar og fleira.

„Ég er svolítið í því að rugga bátum. Mér finnst gaman að tækla málefni sem að mér finnst samfélagið okkar þurfa að gera betur í, svona aðeins að virkja fólk til umhugsunar. Ég elska ekkert meira en málefnalegar samræður og rökræður og tek þeim fagnandi. En þegar á botninn er hvolft er allt sem snýr að börnum hlutir sem að við erum í grunninn flest sammála um, það eru fáir á móti bættu umhverfi barna.“

Það fyrsta sem Brynja gerði þegar hún var spurð hvort hún vildi fara í framboð var að spyrja son sinn Mána um álit.

Þegar miklar umræður eru í samfélaginu um ákveðin hitamál, eins og #metoo umræðan sem hefur verið hávær hér á landi síðustu vikur, segir Brynja að hún reyni að finna leiðir til að miðla þekkingu einhvers sem þekkir málaflokkinn vel. Í síðustu viku var hún í beinni á Instagram með Símoni Sigvaldasyni dómara og svaraði hann þar spurningum, meðal annars um kynferðisbrotamál hér á landi.

„Ég tók þann pól í hæðina þetta og vildi ræða við hann um lagalegu hliðina.“

Ef við segjum ekkert, breytist ekkert

Brynja segir að hún sjái algjörlega fyrir sér að halda áfram að leita á samfélagsmiðlana eftir spurningum, áhyggjum og uppástungum fólks, verði hún kjörin á þing.

„Mér finnst til dæmis í þessu máli að við séum strax að sjá breytingar. Við erum að eiga samtöl. Eins og Eva Mattadóttir sagði svo vel, við erum að uppfæra samfélagið okkar. Ég held að það sé svolítið komið til að vera. Sama hvar við horfum á það. Ég held að það megi alltaf vinna ferla betur. Bara eins og við erum núna að sjá með elsku Siggu sem var send heim af spítalanum með látið barn í móðurkviði yfir helgi,“ segir Brynja. 

„Það er ekkert nýtt, konur lentu líka í þessu fyrir fjörutíu árum en það hefur bara enginn haft hátt um þetta. Þá breytum við aldrei neinu, ef við segjum ekki neitt þá breytist ekki neitt og ég vil ekki búa í þannig samfélagi.“

Allir fái stað til að blómstra

Aðspurð hverju hún myndi breyta ef hún hefði kost á að breyta einhverju strax í dag, óháð kostnaði, svarar hún:

„Ef ég gæti breytt einu í dag þá liggur kannski beinast við að hlusta á og taka mark á umræðunni í samfélaginu síðustu daga og vikur. Þetta ákall um að við gerum betur. Ég myndi vilja sjá betri ferla fyrir gerendur ofbeldis, að gerendur og hugsanlegir gerendur geti leitað sér aðstoðar á fleiri stöðum og þar af leiðandi mögulega fækkað tilfellum þar sem ofbeldi á sér stað.

 En svona í stóru myndinni þá auðvitað langar mig að breyta allskonar hlutum í menntakerfinu okkar. Að nám verði einstaklingsmiðaðra og hver finni sinn stað til þess að blómstra. Við nefnilega getum ekki gert sömu hlutina ár eftir ár og áratug eftir áratug og ætlast til þess að fá aðra niðurstöðu. 

Ég tel að það sé rými fyrir breytingar þarna og að við þurfum að aðlagast og mæta þeirra þörfum og sjá þá vonandi í framhaldi glaðari einstaklinga sem eru tilbúnir að takast á við lífið. Því vissulega er þunglyndi og staða barna og sérstaklega drengja í menntakerfinu stórt áhyggjuefni fyrir okkur öll.“

Leyfir sér að dreyma

Hún byrjaði í stjórn Íslenskrar ættleiðingar á dögunum og það er ýmislegt varðandi málefni ættleiddra barna sem hún segir að mætti bæta.

„Ég er sjálf ættleidd og tikka í óþarflega mörg box kannski, er búin að vera öðruvísi allt mitt líf. Bara það að börn sem koma hingað eldri en ég var þegar ég kem, ég var tveggja mánaða, eru oft með tengslaröskun. Það er ekkert ferli sem tekur við, það er ekkert kerfi sem tekur á móti þeim og veitir þeim eftirfylgni eins og til dæmis ungbarnavernd fyrir nýfædd börn. Í stað þess að við séum að hjálpa einstaklingnum þegar hann er orðinn átján eða eldri og mögulega með allskonar vandamál þá má gera svo margt fram að því til þess að fyrirbyggja þau. Það eru allskonar svona hlutir sem að ég held að við gætum gert betur.“

Aðspurð hvort hún sjái fyrir sér að komast á þing, segir Brynja: 

„Ég er raunsæismanneskja en ég stefni líka hátt og leyfi mér að dreyma. Ef að allt gengur upp og við fáum góða kosningu þá ætti það að geta orðið þannig að ég fari inn á þing í haust, á nýju kjörtímabili.“

Hún viðurkennir að það sé smá skrítin tilhugsun, ógnvekjandi en spennandi og allt í bland.

„Ég þarf náttúrulega bara að læra, ég hef ekki verið á þessum slóðum áður og mér skilst að það sé meir að segja námskeið fyrir nýja þingmenn til að læra á kerfið. Ef ég fæ þennan vettvang til þess að gera betur þá er ég svo meira en tilbúin í það.“

Áskoranir skemmtilegar 

Aðspurð hvað yrði mesta áskorunin, svar hún að helsta áskorunin væri líklega að vera allt í einu orðin almenningseign.

„Að maður þurfi að passa sig hvar maður stígur niður, alltaf.“

Hún viðurkennir að þetta yrði nýtt umhverfi fyrir hana, enda hefur hún verið mjög frjáls síðustu misseri og unnið fyrir sjálfan sig. Brynja hræðist ekki að tala fyrir framan annað fólk en veit að það verður áskorun að þurfa að kynna sér svona víðtæk efni, oft á stuttum tíma. Að vera með á nótunum um málefni langt út fyrir eigið þægindasvið.

„Mér finnst samt gaman að læra nýja hluti og finnst áskoranir skemmtilegar.“

Þegar umræðan berst að því sem hafi mótað hana hvað mest, byrjar Brynja á að nefna æsku sína og uppeldi.

„Það er svo erfitt þegar maður hefur orðið fyrir svona áföllum, að nefna þau ekki.“

Brynja vonar að hún fái tækifæri til þess að hafa áhrif og taka þátt í breytingum.Aldís Páls

Þurfti að hafa fulla stjórn

Brynja segir að áföllin hafi gert hana að þeirri manneskju sem hún er í dag, manneskju sem hún kunni bara alveg ágætlega vel við.

„Auðvitað mótuðu áföllin mín mig og ég varð bara fullorðin sextán eða sautján ára og fór að búa. Ég tók til dæmis ákvörðun um að drekka ekki áfengi þannig að ég væri alltaf meðvituð um hvað er að gerast og að allar ákvarðanir sem ég tek séu hundrað prósent það sem ég vil gera. Þá kemur smá brynja á mig, ég þurfti svolítið að brynja mig fyrir lífinu. Ég keyrði í gegn, kláraði framhaldsskólann og verkfræðina en svo óneitanlega það sem gerir mig að þeirri manneskju sem ég er í dag, er móðurhlutverkið.“

Brynja hefur sagt áður frá því í viðtölum að sonurinn kom með svo mikla birtu og hlýju í hennar líf á tímapunkti þegar það þurfti.

„Ég var komin í það að reyna að hafa stjórn á fáránlegustu hlutum af því að ég þurfti að hafa stjórn á öllu. Fataskápurinn var í litaröð, alltaf þrifið klukkan fimm á föstudögum því þetta var eitthvað sem ég gat haft stjórn á og örugglega vottur af áfallastreituröskun ástæðan fyrir því. Ég hef unnið mig vel út úr því og hef verið hjá sálfræðing í mörg ár, sem ég mæli svosem með að allir geri.“

Neitar að trúa að áföllin séu til einskis

Móðurhlutverkið sýndi Brynju lífið á einhvern dásamlegan hátt og fyrir það er hún einstaklega þakklát.

„Svo fæ ég þessa extra gömlu sál sem er einhvern veginn ljósárum á undan okkur. Það hefur hundrað prósent mótað mig hvað mest að fá að vera mamma, ég var einhvern veginn orðin það löngu áður en ég átti hann. Ég strögglaði smá við að eignast hann og var því barnlaus mamma en svo kemur hann. Ég held að hann eigi stærstan þátt í því sem ég er í dag.“

Það sem hún hefur lært í móðurhlutverkinu hefur líka haft mikil áhrif á þau málefni sem hún brennur fyrir í dag. Mörg þeirra tengjast einmitt börnum.

„Ég neita að yfirgefa þessa jörð án þess að hafa breytt einhverju til hins betra, það hefur alltaf verið mitt markmið. Ég neita að því að þessi áföll séu til einskis, það verður eitthvað gott að koma út frá þeim. tilgangurinn með þeim hlýtur að vera sá að ég geti gert eitthvað betur fyrir einhvern annan sem á eftir að upplifa það sama. . Ég hef alltaf verið öðruvísi og það er mótandi, ég hef reyndar alltaf horft á það sem jákvæðan hlut en ég finn alveg að ég er öðruvísi þegar ég labba inn í hóp af fólki.“

Ég er ekki þekkt fyrir að liggja á skoðunum mínum, segir Brynja.Aldís Páls

Fylgir hjartanu

Brynja segir að við séum alltaf að verða fjölbreyttara og fjölbreyttara samfélag og unga fólkið okkar í dag er svo flott, svo meðvitað og fordómalaust. Hún upplifði sjálf ekki mikla stríðni í skóla en alltaf eitthvað eins og allir en viðurkennir að það blossi í henni þegar sonur hennar lendi í slíku.

„Það hefur áhrif á mann að vera öðruvísi. Ég finn það núna að ef einhver andar á krakkann þá fær maður horn og hala þegar það er einhver undirtónn í því, að þetta sé vegna þess að hann er dökkur. Það gerist sem betur fer ekki oft.“

Brynja segir að fræðsla sé rétta leiðin til þess að tækla þessi málefni. Hún hefur líka verið dugleg að tala um þetta á sínum samfélagsmiðlum til þess að vekja fólk til umhugsunar. Sýnir hún líka töluvert frá móðurhlutverkinu. Það fyrsta sem Brynja gerði þegar hugmyndin um framboð kom upp á borðið, var að spyrja þrettán ára son sinn um álit.

„Við eigum rosalega gott samband og dásamlegt, erum eiginlega bara bestu vinir. Ég kom heim eftir að hafa fengið þessa stóru spurningu, langar þig í framboð? og spyr hann. Máni er hundrað ára gömul sál og hann sagði orðrétt Fylgd þú bara hjartanu þínu og gerðu það sem þú vilt gera. Þannig að ég er bara svolítið að gera það. Svo lengi sem að ég hef hans stuðning og ég og fólkið mitt allt hefur trú á mér þá held ég að hvað sem kemur út úr þessu þá verði þetta lærdómur og skóli sem ég muni taka með mér alla ævi.“


Tengdar fréttir

Brynja Dan í fram­boð fyrir Fram­sókn

Brynja Dan Gunnars­dóttir mun skipa annað sæti á lista Fram­sóknar­flokksins í Reykja­vík norður í komandi þing­kosningum í haust. Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra skipar fyrsta sæti listans. Þetta stað­festi Brynja við Vísi í kvöld en Frétta­blaðið greindi fyrst frá.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×