Lífið

„Þetta er bara þyngra en tárum taki“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Felix Bergsson er fararstjóri íslenska hópsins í Rotterdam. 
Felix Bergsson er fararstjóri íslenska hópsins í Rotterdam. 

„Við erum að fara keppa í kvöld og hér er verið að undirbúa græna herbergið á hótelinu þar sem að þeir Gagnamagnsmeðlimir sem geta verið geta verið og veifað Evrópu,“ segirFelix Bergsson, fararstjóri íslenska Eurovision hópsins í Rotterdam, í samtali við Ívar Guðmundsson á Bylgjunni í morgun.

 Eins og alþjóð veit getur Daði og Gagnamagnið ekki komið fram í beinni útsendingu í Ahoy-höllinni í kvöld en einn meðlimir Gagnamagnsins greindist með Covid-19 í gærmorgun.

Upptaka af annarri æfingu hópsins verður notuð í kvöld þegar lagið 10 Years verður framlag okkar Íslendinga í Eurovision.

„Ef við förum áfram í kvöld verður sama fyrirkomulag og það er algjörlega endanleg ákvörðun,“ segir Felix og á laugardaginn, ef Ísland kemst áfram verður sama upptaka notuð.

„Þau fara ekki aftur inn í höllina. Þeir passa mjög upp á heilsuna hjá öllum hér og síðan gæti komið ákveðin óróleiki ef einhver sem hefur verið með veiruna kemur inn í höllina. Það var því ákveðið að hafa þetta svona og við erum bara mjög sátt við það og tökum þetta bara með stæl héðan af hótelinu.“

Í morgun kom það í ljós að Duncan Duncan Laurence, sigurvegari Eurovision árið 2019, hefur greinst smitaður af Covid-19. Laurence sigraði í keppninni fyrir hönd Hollands í Tel Aviv árið 2019 og átti að koma fram í keppninni í ár.

„Gísli Marteinn var nú að segja við mig hérna í morgun að hann hefði sér Laurence faðma mann og annan grímulaus í blaðamannahöllinni á þriðjudaginn. Við erum bara ógeðslega óheppin og við höfum ekki hugmynd um hvernig veiran fann sér leið inn í íslenska hópinn. Þetta er bara þyngra en tárum taki að hafa lent í þessu. Svona er þetta bara og þetta er bara veruleikinn sem við búum við.“

Hér að neðan má hlusta á viðtalið við Felix.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×