Innlent

Bjartsýn á að hægt verði að ráðast í frekari afléttingar

Birgir Olgeirsson skrifar
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. Vísir/Vilhelm

Forsætisráðherra er bjartsýn á að hægt verði að ráðast í afléttingar á sóttvarnaaðgerðum innanlands í næstu viku. Enginn greindist með veiruna innanlands í gær og tæp 52 prósent fullorðinna hafa fengið eina sprautu af bóluefni við kórónuveirunni.

Síðasti smitlausi dagurinn á Íslandi var fyrir rúmum mánuði, eða 14. apríl. 58 eru í einangrun, en voru 63 í gær. 120 eru í sóttkví en voru 165 í gær. Fjórir eru á sjúkrahúsi með Covid, sem er sami fjöldi og í gær. Einn greindist á landamærunum í gær en sá mældist með mótefni við veirunni.

51,7 prósent fullorðinna hafa fengið að minnsta kosti eina sprautu af bóluefni við kórónuveirunni. 23 prósent teljast fullbólusett en 28,7 prósent hálfbólusett. Samtals munu 28 þúsund fá bóluefni í vikunni, en hluti af þeim munu fá seinni sprautuna.

Í lok apríl kynnti ríkisstjórnin afléttingaráætlun sóttvarnaaðgerða innanlands. Samkvæmt henni er gert ráð fyrir að fjöldatakmörk miðist við 100 til 1000 manns og miðast verði við eins metra nálægðarreglu ef 50 prósent eða fleiri hafi fengið að minnsta kosti eina sprautu af bóluefni við kórónuveirunni.

Núverandi reglugerð rennur út 26. maí en hún kveður á um 50 manna fjöldatakmarkanir, tveggja metra reglu, grímunotkun og takmörkun á rekstri fyrirtækja.

Forsætisráðherra á von á að áframhaldandi aðgerðir innanlands verði ræddar undir lok vikunnar eða um helgina.

„Staðan á faraldrinum er nokkuð góð. Það lítur út fyrir að við höfum náð utan um þessi hópsmit sem hafa komið upp á nokkrum stöðum á landinu. Þannig að ég held að við séum á tiltölulega góðum stað,“ sagði Katrín Jakobsdóttir að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun.

Þannig að það eru góðar líkur á afléttingum í næstu viku?

„Ég er bjartsýn.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×