Innlent

Stefna á að klára varnargarðana á morgun

Sunna Karen Sigurþórsdóttir og Kristín Ólafsdóttir skrifa
Reynt verður að koma í veg fyrir að mikilvægir innviðir eyðileggist.
Reynt verður að koma í veg fyrir að mikilvægir innviðir eyðileggist. Vísir/Vilhelm

Áfram er unnið að því að reisa garða til að varna því að hraunið úr Geldingadölum renni niður í Nátthaga og ógni þannig Suðurstrandarvegi. Stefnt er að því að ljúka verkinu fyrir lok dags á morgun.

Stór jarðýta hófst í fyrrinótt handa við að ryðja upp varnargörðunum við gosstöðvarnar í Fagradalsfjalli, með það að markmiði að reyna að hefta för hrauntungunnar niður í Nátthaga, þaðan sem leiðin er greið niður á Suðurstrandarveg með tilheyrandi tjóni á innviðum og röskun á samgöngum. Verktakar voru að fram á kvöld í gær og voru aftur mættir á staðinn snemma í morgun.

„Verktakar hófu vinnu um klukkan átta í morgun og héldu áfram við vestur varnargarðinn, og náðu að klára hann í rétt um fjögurra metra hæð. Þannig að hann er nokkurn veginn tilbúinn, þessi fyrsti áfangi af þeim varnargarði,“ segir Ari Guðmundsson, byggingarverkfræðingur hjá Verkís.

Vestari garðurinn í Syðri Meradölum er tilbúinn og er um fjögurra metra hár. Austari garðurinn verður verður bæði lengri og hærri.

„Þeir eru báðir jafn háir þannig að við byrjum á þessum fyrsta áfanga sem er fjögurra metra hár. En það er ekkert ólíklegt að við förum hærra, kannski sex eða átta metra.“

Ari telur að garðarnir eigi að duga til þess að varna því að hraunið renni úr nafnlausa dalnum svokallaða og niður í Nátthaga.

„Það hefur sýnt sig að hraunið getur verið meira en átta metrar fyrir aftan svona varnargarða án þess að hann bresti. Það er hörð skel á hrauninu þegar það byrjar að kólna þannig að við erum að vinna með það núna að fara upp í átta metrar núna í þessari lotu.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×