Fótbolti

26 dagar í EM: Finnar fimmta Norður­landa­þjóðin sem kemst á EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Teemu Pukki var magnaður með Finnum í undankeppninni.
Teemu Pukki var magnaður með Finnum í undankeppninni. EPA-EFE/VASSIL DONEV

Vísir telur niður í Evrópumótið í knattspyrnu sem hefst 11. júní næstkomandi. Tveir nýliðar eru með að þessu sinni, Finnland og Norður-Makedónía.

Finnland verður í sumar fimmta Norðurlandaþjóðin sem kemst í úrslitakeppni Evrópumótsins en á Evrópumótinu í Frakklandi fyrir fimm árum þá varð Ísland fjórða landslið Norðurlanda til að keppa á EM karla í fótbolta.

Íslenska landsliðið var í hópi fjögurra nýliða á EM í Frakklandi 2016 en nú eru Finnar og Norður-Makedóníumenn einu nýliðarnir.

Finnland tryggði sér sætið sitt 15. nóvember 2019 með því að ná öðru sæti í sínum riðli í undankeppninni. Norður Makedónía komst aftur á móti í gegnum umspilið tengt D-deild Þjóðadeildarinnar.

Finnska landsliðið endaði heilum tólf stigum á eftir toppliði Ítala (unnu alla 10 leikina) en varð fjórum stigum á undan Grikklandi og fimm stigum á undan Bosníu.

Finnar unnu sex leiki og töpuðu tveimur. Auk tapleikjanna á móti Ítölum þá tapaði Finnlandi 4-1 á útivelli á móti Bosníu og svo 2-1 í útileik á móti Grikklandi í lokaleik riðilsins þegar EM-sætið var tryggt.

Teemu Pukki var langmarkahæsti leikmaður Finna og riðilsins með tíu mörk en hann skoraði sex mörkum meira en næstu menn í riðlunum og átta mörkum meira en næsti liðsfélagi. Pukki skoraði 10 af 16 mörkum Finna eða 63 prósent markanna.

Finnar unnu jafnmarga leiki í þessar undankeppni EM (6) og tveimur undankeppnum á undan (EM 2012 og EM 2016). Næst höfðu þeir komist sæti á EM í undankeppninni fyrir mótið 2008 þegar þeir voru þremur stigum frá sæti í úrslitakeppninni. Pólland og Portúgal komust þá áfram.

Finnland og Ísland hafa bæst í hóp EM-þjóða í síðustu keppnum en áður höfðu Danir, Svíar og Norðmenn komist alla leið.

Danir voru fyrstir Norðurlandaþjóða til að komast í úrslitakeppni EM en það var árið 1968 þegar aðeins fjórar þjóðir komust þangað. Danir töpuðu þá 3-0 í undanúrslitaleiknum á móti Sovétríkjunum og 3-1 á móti Ungverjalandi í leiknum um þriðja sætið.

Svíar komust fyrst í úrslitakeppni EM árið 1992 þegar þeir héldu keppnina. Svíar komust þá alla leið í undanúrslitin en árið 1992 innihélt Evrópumótið átta þjóðir. Svíar töpuðu 3-2 á móti Þýskalandi í undanúrslitaleiknum.

Norðmenn bættust svo í hópinn á EM í Belgíu og Hollandi árið 2000. Norðmenn fengu reyndar aðeins eitt mark á sig en þeir skoruðu líka bara eitt mark sjálfir og sátu eftir í riðlinum á færri mörkum skoruðu en Júgóslavía. Norðmenn hafa ekki komist á EM síðan.

Íslenska landsliðið komst síðan alla leið í átta liða úrslitin á sínu fyrsta Evrópumóti sumarið 2016 þar sem íslensku strákarnir slógu út Englendinga en féllu svo úr keppni eftir tap á móti gestgjöfum Frakka í átta liða úrslitunum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×