Fótbolti

Gerrard greinir frá leynisamtölum við Ferguson

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Steven Gerrard hefur gert frábæra hluti síðan hann tók við Rangers fyrir þremur árum.
Steven Gerrard hefur gert frábæra hluti síðan hann tók við Rangers fyrir þremur árum. getty/Ian MacNicol

Steven Gerrard, knattspyrnustjóri Skotlandsmeistara Rangers, hefur leitað ráða hjá Sir Alex Ferguson, fyrrverandi stjóra Manchester United.

Í viðtali við the Guardian hrósaði Ferguson Gerrard í hástert fyrir starfið sem hann hefur unnið hjá Rangers. Ferguson sagði Gerrard hafa gert stórkostlega hluti með Rangers. Ferguson spilaði með skoska stórliðinu á sínum yngri árum.

Gerrard segist hafa verið upp með sér að fá hrós frá Ferguson og viðurkennir að hafa sótt í reynslubanka Skotans sigursæla sem hann átti oft í höggi við er hann var leikmaður Liverpool.

„Ég get sagt ykkur smá leyndarmál. Ég hef rætt nokkrum sinnum við hann. Eftir að ég hætti höfum við slíðrað sveðrin og hann gaf sér tíma til að ræða nokkrum sinnum við mig í síma. Ég spurði hann nokkurra spurninga um þjálfunina hjá Rangers,“ sagði Gerrard þegar hann tók við verðlaunum fyrir að vera stjóri ársins í Skotlandi í gær.

„Hann var frábær í þessum samtölum. Einhvern tímann í framtíðinni sagðist ég vera til í að fá mér kaffi með honum og hann samþykkti það sem er frábært því hann þarf ekkert að gera það. Það sýnir hvaða mann hann hefur að geyma. Hann er ekki bara þessi frábæri stjóri sem við öll þekkjum.“

Rangers er löngu búið að tryggja sér skoska meistaratitilinn og á möguleika á að fara ósigrað í gegnum tímabilið. Tveimur umferðum er ólokið í skosku úrvalsdeildinni.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.