Erlent

Stefnir á þjóðar­at­kvæða­greiðslu um sjálf­stæði eftir kosninga­sigur

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Nicola Sturgeon er fyrsti ráðherra Skotlands.
Nicola Sturgeon er fyrsti ráðherra Skotlands. Jeff J Mitchell/Getty

Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra Skotlands, hefur heitið því að ráðist verði í þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands frá Bretlandi eftir þingkosningarnar sem fram fóru í gær. Hún segir engan vafa um að kosningarnar myndu skila þingmeirihluta sem væri fylgjandi sjálfstæði.

Bori Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hefur sagt að hann myndi koma í veg fyrir slíka þjóðaratkvæðagreiðslu, en það telur Sturgeon í hæsta máta undarlegt.

„Eina fólkið sem tekur ákvarðanir um framtíð Skotlands eru Skotar og enginn stjórnmálamaður í Westminster getur eða ætti að standa því í vegi,“ hefur Reuters eftir Sturgeon.

Niðurstöður kosninganna í heild liggja ekki fyrir, en Skoski þjóðarflokkurinn, flokkur Sturgeon, hefur tryggt sér 62 þeirra 86 sæta sem niðurstöður liggja fyrir um. Í heild eru 129 þingsæti í skoska þinginu.

Ólíklegt er talið að flokkurinn nái að tryggja sér hreinan þingmeirihluta. Skoski græningjaflokkurinn, sem einnig er fylgjandi sjálfstæði, er þó talinn munu tryggja sér yfir sex þingsæti. Þannig verði meirihluti þingmanna fylgjandi sjálfstæði.

„Það virðist hafið yfir allan vafa að meirihluti þingsins verður fylgjandi sjálfstæði Skotlands,“ sagði Sturgeon í dag. Kvaðst hún telja réttast að sá meirihluti heiðraði skuldbindingu sína við Skosku þjóðina, og vísaði þannig til kröfunnar um þjóðaratkvæðagreiðslu.

Árið 2014 fór fram þjóðaratkvæðagreiðsla um sjálfstæði Skotlands frá Bretlandi. Hún fór svo að rúm 55 prósent greiddu atkvæði gegn sjálfstæði.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×