Innlent

Fangelsisdómur bíður þeirra sem verða staðnir að sinubruna

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Þrír karlmenn á aldrinum átján og nítján ára fengu þriggja mánaða skilorðsbundna dóma árið 2008 fyrir sinubruna sem var mun minni en sá sem varð í Heiðmörk á þriðjudag.
Þrír karlmenn á aldrinum átján og nítján ára fengu þriggja mánaða skilorðsbundna dóma árið 2008 fyrir sinubruna sem var mun minni en sá sem varð í Heiðmörk á þriðjudag. Vísir/Vilhelm

Þrír piltar á framhaldsskólaaldri voru í september 2008 dæmdir í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir sinubruna í landi Skógaræktarfélags Hafnarfjarðar við Hvaleyrarvatn. Piltarnir kveiktu eldinn í lok apríl sama ár.

Veðurfar í mánuðinum var ekki ósvipað því og er nú. Mun minni úrkoma en í venjulegu ári, sólin skein og gróður þurr. Þó ekki jafn þurr og nú en ekki hefur verið jafnþurrt í Reykjavík í ár fyrstu fjóra mánuði ársins í aldarfjórðung.

Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu áætlar að um 200 hektarar, rúmlega tveir ferkílómetrar, hafi brunnið í Heiðmörk á þriðjudaginn. Í apríl 2008 brann mun minna svæði eða tæplega átta hektarar af grónu landi, þar á meðal rúmlega sjö þúsund tré.

Ekkert hefur komið fram um eldsupptök í eldinum í Heiðmörk á þriðjudag. Heiðmörk er opin en bannað er að kveikja eld á svæðinu, hvort sem er í formi sígarettu eða í stærri mæli.

Óvissustig almannavarna er á Suðurlandi öllu, vestur á Snæfellsnes og austur undir Eyjafjöll. Lítil úrkoma er í kortunum og áhyggjur töluverðar hjá slökkviliðsstjórum og sumarhúsaeigendum á svæðunum.

Áhyggjur eru því töluverðar en sé horft til dómsins sem piltarnir þrír fengu fyrir minni sinubruna árið 2008 má telja ólíklegt að vægari dómur en þriggja mánaða fangelsi bíði þeirra sem staðnir verða að sinubruna. Hámarksrefsing í brotaflokknum er sex ára fangelsi.


Tengdar fréttir

Næststærsti gróðureldur á Íslandi í fimmtán ár

Gróðureldurinn í Heiðmörk í gær virðist hafa verið sá næststærsti á Íslandi frá brunanum mikla á Mýrum í Borgarfirði fyrir fimmtán árum. Fyrstu fjórir mánuðir ársins voru þeir þurrustu í Reykjavík í meira en aldarfjórðung.

Heiðmörk opin en reykingar bannaðar

Göngustígar og akvegir í Heiðmörk eru opnir gestum þrátt fyrir gróðureldinn sem geisaði á þriðjudaginn. Reykingar og hvers kyns meðferð elds eða eldfæra er bönnuð í Heiðmörk á meðan veður er jafn þurrt og nú er. Gestir friðlandsins eru hvattir hugsa vel um náttúruna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×