Innlent

Hvergi bangnir þrátt fyrir faraldur í grunnbúðum

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar

Nokkur fjöldi fjallagarpa hefur þurft að hætta við að ganga á Everest-fjall síðustu daga vegna útbreiðslu kórónuveirunnar í grunnbúðum. Íslendingar á svæðinu segjast gæta vel að sóttvörnum en að faraldurinn hafi ekki haft mikil áhrif á þeirra leiðangur.

Þeir Heimir Fannar Hallgrímsson og Sigurður Bjarni Sveinsson hafa nú verið í hæðaraðlögun á svæðinu í 35 daga. Markmiðið er að komast á Everest-tind. 

Þeir ganga á fjallið til styrktar Umhyggju, félags langveikra barna og hafa haldið úti ferðadagbók á Facebook-síðunni með Umhyggju á Everest.

Heimir segir leiðangurinn hafa gengið vonum framar. „Við erum óbólusettir og höfum þurft að passa okkur vel til að hindra smit. Viðhöfum  hagað sóttvörnum eftir því.“

Að sögn Sigurðar er fólkið í búðunum vant því að takast á við veikindi, enda lítið súrefni og þurrt loft.

„Þau tilfelli sem við höfum frétt af eru í búðum og búðir eru einangraðar. Sóttvarnir eru ekki eins og þær eru heima, enda erum við í 5.300 metra hæð og það getur verið erfitt að halda utan um hlutina,“ segir Sigurður.

Þeir félagar hafa þurft að einangra sig nokkuð vegna faraldursins og segjast orðnir perluvinir. Leiðinlegt sé að ná ekki jafnmikilli samveru með öðrum á svæðinu og tíðkast en það sé ekkert aðalatriði.

„Númer eitt, tvö og þrjú er fyrir okkur að komast á toppinn og að söfnun fyrir Umhyggju ,félag langveikra barna, gangi vel. Það er aðalmarkmiðið,“ segir Heimir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×