Innlent

Ræða að­lögun að lofts­lags­breytingum á árs­fundi Veður­stofunnar

Kjartan Kjartansson skrifar
Veðurstofa Íslands heldur ársfund sinn í dag þar sem aðlögun að loftslagsbreytingum verður til umræðu.
Veðurstofa Íslands heldur ársfund sinn í dag þar sem aðlögun að loftslagsbreytingum verður til umræðu. Vísir/Vilhelm

Aðlögun að loftslagsbreytingum af völdum manna verður efst á baugi á ársfundi Veðurstofu Íslands sem fer fram nú í morgun. Til stendur að kynna fyrstu skrefin að því að styrkja brú á milli vísinda og samfélags í gegnum nýjan samstarfsvettvang stofnana og hagaðila undir forystu Veðurstofunnar.

Auk Guðmundar Inga Guðbrandssonar, umhverfisráðherra, og Árna Snorrasonar, forstjóra Veðurstofunnar, halda nokkrir sérfræðingar erindi um loftslagsbreytingar og aðlögun að henni. Halldór Björnsson, hópstjóri veðurs og loftslags, fjallar um það sem gerist í náttúrunni sem menn þurfa að aðlagast og Brynhildur Davíðsdóttir, prófessor í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands, ræðir um þjóðarsálina og loftslagsbreytingar.

Í lok fundar verða pallborðsumræður um hvernig hægt er að aðlagast loftslagsbreytingum undir stjórn Halldórs Þorgeirssonar, formanns Loftslagsráðs. Þátttakendur í umræðunni verða þau Þorsteinn Sigurðsson, forstjóri Hafrannsóknarstofnunar, Kristín Linda Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, Þorkell Lindberg Þórarinsson, forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands, Ásdís Hlökk Theodórsdóttir, forstjóri Skipulagsstofnunar, Eygerður Margrétardóttir, sérfræðingur í umhverfis og úrgangsmálum hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Hjálmar A. Sigþórsson, framkvæmdastjóri TM trygginga

Fundurinn hefst klukkan níu og er hægt að fylgjast með honum í beinu streymi hér og í spilaranum hér fyrir neðan.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×