Erlent

Marine Le Pen sýknuð af á­kæru um hatur­s­orð­ræðu

Atli Ísleifsson skrifar
Marine Le Pen mun líklega bjóða sig fram gegn Emmanuel Macron í frönsku forsetakosningunum á næsta ári. Hún segir málið sprottið undan rifjum pólitískra andstæðinga sinna.
Marine Le Pen mun líklega bjóða sig fram gegn Emmanuel Macron í frönsku forsetakosningunum á næsta ári. Hún segir málið sprottið undan rifjum pólitískra andstæðinga sinna. EPA

Dómstóll í Frakklandi hefur sýknað Marine Le Pen, formann hægriöfgaflokksins Þjóðfylkingarinnar og fyrrverandi forsetaframbjóðanda af ákæru um hatursorðræðu.

Dómstóllinn í Nanterre, sem er að finna í úthverfi höfuðborgarinnar Parísar, taldi að Le Pen hafi ekki brotið lög þegar hún birti myndir af ódæðisverkum liðsmanna hryðjuverkasamtakanna ISIS á Twitter árið 2015.

Le Pen birti myndirnar í kjölfar hryðjuverkaárásanna í París þar sem íslamskir hryðjuverkamenn drápu 130 manns í röð árása. Var um að ræða þrjár myndir sem Le Pen birti, þar á meðal mynd af líki bandaríska blaðamannsins James Foley sem hryðjuverkamenn höfðu afhöfðað.

Le Pen hélt fram sakleysi sínu, en saksóknarar höfðu farið fram á að hún yrði dæmd til greiðslu fimm þúsund evra sektar, um 750 þúsund króna. Í ákæru var hún sökuð um að hafa brotið lög þar sem kveðið er á um að bannað sé að miðla ofbeldisskilaboðum sem talin séu geta skaðað mannlega reisn.

Le Pen, sem mun líklega bjóða sig fram gegn Emmanuel Macron í frönsku forsetakosningunum á næsta ári, sagði dómsmálið sprottið undan rifjum pólitískra andstæðinga sinna.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.