Innlent

Afar sérstakur hundur í Reykjanesbæ

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
María Ísrún og óskar Ingi með Myrru sína, sem þau segja æðislegan hund en hún er svokallaður Lunda-hundur.
María Ísrún og óskar Ingi með Myrru sína, sem þau segja æðislegan hund en hún er svokallaður Lunda-hundur. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Tíkin Myrra í Reykjanesbæ er afar sérstakur hundur því hún er svokallaður Lunda hundur til að veiða lunda í holum þeirra. Myrra er með auka klær á hverjum fæti og getur getur snúið framfótleggjum í 90 gráður. Aðeins eru til fimm Lunda hundar á Íslandi.

Myrra og eigendur hennar búa á Melteignum í Keflavík í Reykjanesbæ. Myrra er ekki nema átta mánaða og segja eigendur hennar að hún sé óþekkt hvolpaskott og ekki sú hlýðnasta í augnablikinu en samt sé hún mjög ljúf og alltaf til í klapp og klór.

„Þetta er Norskur Lunda – hundur. Þetta er afar sjaldgæf tegund en 1963 voru bara til sex svona hundar í Noregi en núna eru þeir taldir verða 1500 til 2000, mest í Noregi en það eru bara fimm hér á Íslandi. Það er hún Myrra hérna, svo eru það mamma hennar og pabbi og svo á hún tvö systkini,“ segir María Ísrún Hauksdóttir, eigandi Myrru.

Og hún bætir við.

„Myrra er með auka klær á hverri löpp. Lunda hundar eru með sex, hún er að vísu með sjö. Það er til þess að geta krafsað sig upp í hellana og náð í lundana og eggin svo hún haldi sér betur. Svo er hún með auka liðamót, það er líka svo hún geti klifrað. Hún getur sveigt fæturna svona og svo getur hún sveigt hausinn alla leið hingað, hún er ekkert voðalega hrifin af því að láta gera það. Svo getur hún lokað eyrunum svo vatn leki ekki inn í þau þegar hún er inn í hellum og annað.“

Hugmyndin er að flytja inn rakka frá Noregi og para við Myrru þannig að það komi hvolpar í þeim tilgangi að halda stofninum við hér á landi.

„Þetta er æðislegur hundur, alveg frábær, algjörlega drauma hundurinn, ekki of stór og ekki of lítil,“ segir Óskar Ingi Víglundsson, sem er líka eigandi Myrru með Maríu.

Samskonar hundur og Myrra, Lunda-hundur en aðeins eru til fimm svona hundar á Íslandi.Aðsend


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×