Innlent

„Ef verð­bólga fer vaxandi í Banda­ríkjunum þá fara vextir í heiminum upp“

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands.
Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands. vísir/vilhelm

Gylfi Zoega hagfræðiprófessor segir að þróun efnahagsmála í Bandaríkjunum muni hafa gríðarleg áhrif á alþjóðahagkerfið í kjölfar heimsfaraldursins. Hann segir launahækkanir hér á landi hafa neikvæð áhrif á samkeppnisgreinar eins og ferðaþjónustu.

Gylfi ræddi verðbólgu, atvinnuleysi og almennar horfur í efnahagsmálum í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. Hann segir þróun efnahagsmála í Bandaríkjunum spila stórt hlutverk í kjölfar heimsfaraldursins.

„Samfélagið þar mun væntanlega fara í eðlilegt horf þegar líður á sumar, með alveg gríðarlegum stimulus og láum vöxtum. Ef að það eina sem gerist þar er að atvinna eykst án þess að verðbólga fari upp þá fari upp þá verður þetta vel heppnað. Ef að verðbólga fer vaxandi í Bandaríkjunum þá fara vextir í heiminum upp og við erum auðvitað bara örlítið peð í því dæmi. Þá getum við búist við því að vaxtastig hér og annars staðar hækki,“ sagði Gylfi.

Gríðarleg óvissa sé enn uppi í heimshagkerfinu. Hann segir að verðbólgan hér á landi nú stafi að miklu leyti af hækkandi fasteignaverði en Gylfi segir þó ljóst að komið verði í veg fyrir verðbólguskrið með einhverjum ráðum. Hann segir erfitt að útrýma atvinnuleysi á meðan það er eins mikið og raun ber vitni í ferðaþjónustu.

Gylfi var jafnframt spurður um áhrif launa á efnahagsþróunina en kaupmáttur launa hér á landi hefur vaxið í niðursveiflunni. „Hlutdeild launa í þjóðartekjum hér á landi er mjög mikil, hún hefur ekki lækkað eins og hún hefur gert í ýmsum öðrum löndum,“ sagði Gylfi.

Stærstur hluti hagkerfisins hafi þolað launahækkanir hingað til. „En tíu prósent hagkerfið, ferðaþjónustan, hún var orðin löskuð áður en covid kom vegna þess að hlutdeild launa í heildartekjum hafði ekki verið hærri síðan alla veganna 2003, svo að þessi launaþróun, hún gerir samkeppnisgreinunum mjög erfitt fyrir,“ sagði Gylfi en viðtalið við hann í heild sinni má heyra í spilaranum hér að ofan.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.