Innlent

Bæta við þriðja sótt­kvíar­hótelinu á morgun þar sem hin eru að fyllast

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Örvar Rafnsson og Áslaug Yngvadóttir eru umsjónarmenn sóttkvíarhótelsins.
Örvar Rafnsson og Áslaug Yngvadóttir eru umsjónarmenn sóttkvíarhótelsins. Vísir/Arnar Halldórsson

Gert er ráð fyrir að nýtt sóttkvíarhótel verði tekið í notkun á höfuðborgarsvæðinu á morgun, til viðbótar við þau tvö sem fyrir eru. Að óbreyttu er útlit fyrir að þau hótel sem þegar eru í notkun fyllist á morgun eða hinn í ljósi þess að von er á þremur áætlunarferðum frá skilgreindum áhættusvæðum til landsins í dag og öðrum þremur á morgun.

Þetta staðfestir Áslaug Ellen Yngvardóttir, umsjónarmaður sóttkvíarhótelsins, í samtali við Vísi. Ekki liggur endanlega fyrir ennþá hvaða hótel verður þriðja hótelið í Reykjavík sem notað verður sem sóttkvíarhótel.

„Við erum að fara að opna nýtt hótel á morgun,“ segir Áslaug, sem var einmitt að í óða önn að skoða nýtt hótel þegar Vísir náði af henni tali síðdegis.

„Við munum örugglega taka það í gagnið á morgun þannig að það verði tilbúið fyrir Póllandsflugið ef við skyldum fylla Fosshótel Reykjavík og Hótel Storm í Reykjavík í dag. Þannig að við erum að fara að undirbúa nýtt hótel á morgun því að við getum ekki verið viss um hvort að hin tvö muni duga,“ segir Áslaug.

Aðspurð segir hún að ekki liggi endanlega fyrir hvaða hótel það verður sem bætist við. „Það eru búin að aukast svo mikið flugin á laugardögum og þess vegna eru breytingar núna af því það er miklu fleira fólk en hefur verið. Ferðasumarið er byrjað,“ segir Áslaug Ellen létt í bragði. „Við finnum fyrir því í sóttkvínni.“

Hún segir að almennt hafi gengið vel síðan að nýjar reglur tóku síðast gildi á landamærum sem skilda þá sem koma frá skilgreindum hááhættusvæðum til að sæta sóttkví á sóttvarnahóteli.

„Ég myndi bara segja ótrúlega vel. Bara allir frekar sáttir og voða lítið um kvartanir og virðist bara sem fólki líði vel hjá okkur sem er mjög ánægjulegt,“ segir Áslaug.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.