Innlent

Vill sjá alþjóðaflugvöll á Geitasandi í Rangárvallasýslu

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Guðni Ragnarsson, flugmaður á Hvolsvelli og bóndi á Guðnastöðum í Austur Landeyjum í Rangárþingi eystra.
Guðni Ragnarsson, flugmaður á Hvolsvelli og bóndi á Guðnastöðum í Austur Landeyjum í Rangárþingi eystra. Aðsend

Atvinnuflugmaður á Hvolsvelli, sem er jafnframt bóndi í Landeyjunum vill sjá að alþjóðaflugvöllur verði byggður á Geitarstandi á milli Hellu og Hvolsvallar. Hann segir veðuraðstæður sérstaklega góðar á svæðinu fyrir flug, auk þess sem svæðið sé bara sandur og því auðvelt og ódýrt að byggja þar flugvöll.

Guðni Ragnarsson, flugmaður vakti athygli á málinu í vikunni í grein í Dagskránni, Fréttablaði Suðurlands. Hann segir segir Geitasand besta stað landsins fyrir nýjan alþjóðaflugvöll á Íslandi.

„Já, það vantar annan alþjóðaflugvöll á Íslandi og við í Rangárvallasýslu erum með eitt besta flugvallarstæði á landinu. Ég er að tala um á Geitasandi á milli Hvolsvallar og Hellu, það er mjög mikið landsvæði þarna, sem Landgræðslan á. Svæðið er ekki þéttbýlt heldur mjög strjálbýlt og væri auðvelt að byggja flugvöll á,“ segir Guðni.

Guðni segir að það væri hægt að bjóða öllum flugfélögum að fljúga beint á flugvöllinn.

„Já, þetta er hjarta ferðaþjónustunnar á Íslandi, það er Suðurland og geta lent í miðjunni á því, miðjum gullhringnum, það er náttúrlega mjög gott.“

Guðni segir að það sé ekki hægt að hugsa sér betri stað en Geitasand undir alþjóðaflugvöll.

„það er svo staðvindarsamt þarna, engin fjöll nálægt og svo er þetta ekki sama veðursvæði og Keflavíkurflugvöllur. Þannig að þetta er ákjósanlegur varaflugvöllur fyrir hvorn annan og sparar náttúrulega mikið eldsneyti fyrir vélar.“

En er þetta raunhæf hugmynd að mat Guðna?

„Já, ég held að þetta sé einn ákjósanlegasti staður til flugvallar, annar flugvöllur á Íslandi því við búum bæði vel að mannskap, bæði á Hellu og Hvolsvelli, sem eru mjög flott sveitarfélög og þessi staður er örugglega sá ódýrasti til að byggja flugvöll á því þarna er sandur og ætti að vera ódýrt og auðvelt að byggja flugvöll,“ segir Guðni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×