Erlent

Æfir yfir í­­mynduðum tak­­mörkunum Bidens á kjöt­­neyslu

Samúel Karl Ólason skrifar
Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, hefur ekki lagt fram áætlanir um að skikka Bandaríkjamenn til að draga úr kjötneyslu.
Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, hefur ekki lagt fram áætlanir um að skikka Bandaríkjamenn til að draga úr kjötneyslu. AP/Andrew Harnik

Repúblikanar hafa lýst yfir miklum áhyggjum undanfarna daga af því að Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, ætli að banna fólki að borða hamborgara. Hann ætli að skera neyslu kjöts niður um 90 prósent fyrir árið 2030.

Áköll um að Biden haldi sig frá eldhúsum Bandaríkjamanna heyrðust um helgina frá áhrifamiklum íhaldsmönnum, þingmönnum, ríkisstjórum og jafnvel í fjölmiðlum. Sérstaklega í þáttum Fox News um helgina.

Meðal þeirra sem tjáðu sig var umdeilda þingkonan Lauren Boebert.

Sjónvarpsmaðurinn Larry Kudlow á Fox, sem starfaði áður sem efnahagsráðgjafi Donalds Trumps, varaði við því um helgina að Bandaríkjamönnum yrði bannað að borða hamborgara og steikur á 4. júlí, þjóðhátíðardag Bandaríkjanna.

Þess í stað yrðu þeir að grilla grænmeti og yrðu þvingaðir til að drekka bjór sem gerður væri úr einhverskonar plöntum, eins og bjór er yfirleitt gerður.

Nokkrir aðrir þáttastjórnendur Fox tóku undir þennan málflutning um helgina.

Staðhæfingar um að Biden ætli sér að stela kjöti af borðum Bandaríkjamanna eiga þó ekki stoð í raunveruleikanum. Var það viðurkennt á Fox í gær að málflutningurinn um að Biden ætlaði að svo gott sem stöðva neyslu kjöts væri rangur.

Þingmaðurinn Madison Cawthorn tísti einnig um ásakanirnar og sakaði hann Biden um að vera keisara sem ætlaði sér að stöðva það að haldið yrði upp á þjóðhátíðardaginn og þar að auki banna fólki að fá sér hamborgara.

Donald Trump yngri hefur einnig tjáð sig um hinar ímynduðu ætlanir Bidens og sagt að hann borði á einum degi það sem Biden ætli sér að leyfa fólki að borða af kjöti á mánuði. Minnst tveir ríkisstjórar, Greg Abbott frá Texas og Brad Little frá Idaho deildu grafík frá Fox og sögðu bann við kjöti ekki koma til greina.

Uppruni þessara lyga virðist eiga rætur í misvísandi og rangri grein Daily Mail þar sem rannsókn frá 2020 var sett í samhengi við væntanlegar umhverfisverndaraðgerðir Bidens, jafnvel þó engin tengsl væru þar á milli.

Umrædd rannsókn fjallaði um það að Bandaríkjamenn gætu dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda með því að draga úr kjötneyslu og var birt löngu áður en Biden tók við embætti.

Biden hefur ekki opinberað neinar áætlanir um að draga úr kjötneyslu. Áætlanir hans um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um helming fyrir árið 2030, snúa ekki að landbúnaði, eins og farið er yfir í grein Politico.

Tom Vilsack, landbúnaðarráðherra, staðfesti það í gær og haf hann í skyn að Repúblikanar væru að dreifa lygum, vitandi að þær væru ósannar.

Innan veggja Hvíta hússins hefur mönnum þótt þessar ásakanir kómískar og hefur verið litið á þær sem staðfestingu þess að Repúblikanar eigi í miklu basli með að ná höggi á forsetann, samkvæmt heimildum Washington Post.

Starfsmenn Hvíta hússins hafa tíst myndum af forsetanum við grillið og gert lítið úr rangfærslunum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×