Innlent

Mest á­nægja með Katrínu en Ás­mundur há­stökkvarinn milli kannana

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
FotoJet (31)

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra mælist enn vinsælasti ráðherra ríkisstjórnarinnar og Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra nýtur hve minnstra vinsælda samkvæmt nýjum þjóðarpúlsi Gallup. Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, er hástökkvarinn milli kannana en ánægja með störf hans hefur aukist hvað mest frá því í fyrra.

Könnuð var ánægja með störf ráðherra og voru niðurstöður bornar saman við mælingu sem gerð var á svipuðum tíma á síðasta ári. Ánægja með störf Katrínar hefur aukist úr 59 prósentum í fyrra upp í 67 prósent samkvæmt nýju könnuninni.

Ánægja með störf Ásmundar Einars eykst aftur á móti úr 35 prósentum og upp í 59 prósent. Svandís Svavarsdóttir bætir einnig við sig og segjast 53 prósent ánægð með hennar störf, samanborið við 46 prósent í fyrra.

Könnunin var gerð með netkönnun dagana 25. mars til 19. apríl 2021. 3.186 voru í úrtaki og var svarhlutfall 50,3 prósent.Gallup

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, er aftur á móti sá ráðherra þar sem ánægja minnkar hvað mest milli ára. Í fyrra sögðust 54 prósent ánægð með hennar störf en hlutfallið fer niður í 42 prósent samkvæmt nýju könnuninni.

Þá dalar einnig ánægja með störf Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, ferðamála- iðnaðar og nýsköpunarráðherra, sem mældist með 46 prósent í fyrra en 35 prósent nú. Ánægja með störf Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, dalar einnig lítillega en aðrir ráðherrar Sjálfstæðisflokksins, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson og Kristján Þór Júlíusson, bæta við sig.

Enn mælist þó minnst ánægja með störf Kristjáns Þórs, sem fer þó upp um eitt prósentustig á milli ára, úr 10 prósent í fyrra upp í 11 prósent í ár. Ánægja með störf Guðmundar Inga Guðbrandssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra, fer lítillega niður á við milli ára en ánægja með störf Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, eykst um sjö prósentustig milli ára.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×