Innlent

Leggur til strangari viðmið fyrir skyldudvöl ferðamanna

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir er rólegri í dag en í gær.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir er rólegri í dag en í gær. Vísir/Vilhelm

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir leggur til strangari viðmið fyrir skyldudvöl ferðamenna í sóttvarnahúsi en gert var ráð fyrir í upprunalegum hugmyndum ráðherra. Hann hefur skilað minniblaði þar að lútandi til ráðhera.

Tíu greindust með Covid-19 í gær. Níu voru í sóttkví og einn utan sóttkvíar. 134 eru nú í einangrun og 812 í sóttkví.

Sóttvarnalæknir segist vera rólegri í dag en í gær.

„Á meðan þetta er ekki að rjúka neitt upp getur maður verið tiltölulega rólegur og það er bara fínt og við höldum bara þessu sama striki. Þannig ég tel nú ekki ástæður til að vera með tillögur um hertari aðgerðir eins og staðan er núna,“ segir Þórólfur.

Á meðan að þeir sem greinist eru með tengsl við fyrri hópsýkingar bíði hann með tillögur að hertum aðgerðum innanlands. „Ég tel ekki ástæðu til þess í dag en þetta er skoðað frá degi til dags,“ segir Þórólfur.

Hann skilaði heilbrigðisráðherra hins vegar minnisblaði um tillögur að hertum aðgerðum á landamærum í gærkvöldi, í samræmi við nýsamþykkt lög sem heimila yfirvöldum að skylda ferðamenn í sóttvarnarhús. Samkvæmt lögunum skilgreinir Þórólfur hvaða lönd eru hááhættusvæði eftir fjölda smita, nýgengi þeirra og þeim veiruafbrigðum sem þar greinast. Hann segir að smitstuðulinn sem hann miðar við í minnisblaðinu sé lægri en þúsund smit á hverja hundrað þúsund íbúa.

„Já við erum að tala um lægri tölu en það.“

Eitthvað mikið lægri? „Sjáum bara til,“ segir Þórólfur og bætir við að hann hafi lagt það í vana sinn að ræða ekki einstaka tillögur sínar þar til ráðherra hefur birt reglugerð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×