Innlent

Gas lagði yfir Njarðvík í nótt og gæti fundist í byggð í dag

Kjartan Kjartansson skrifar
Gasið frá eldgosinu gæti lagt yfir byggð allt frá Vogum til Hafna í dag.
Gasið frá eldgosinu gæti lagt yfir byggð allt frá Vogum til Hafna í dag. Vísir/Vilhelm

Engar breytingar urðu á eldgosinu á Reykjanesi í nótt og lítil skjálftavirkni var á svæðinu. Gas lagði um tíma yfir Njarðvík en mengunin dreifðist fljótt aftur. Íbúar á Reykjanesskaga gætu fundið fyrir gasmengun í dag.

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands náði styrkur gasmengunar um 1.100 míkrógrömmum á rúmmetra í Njarðvík á þriðja tímanum í nótt. Slíkur styrkur er talinn óhollur fyrir viðkvæma sem geta fundið fyrir hósta, ertingu í augum, koki og nefi samkvæmt viðmiðum Umhverfisstofnunar. Mengunin staldraði þó stutt við í byggð.

Á gossvæðinu sjálfu urðu litlar sem engar breytingar. Vefmyndavél Ríkisútvarpsins virðist hafa dottið út í nótt en bæði Veðurstofan og Mbl.is eru enn með myndavélar í gangi, að sögn Veðurstofunnar.

Spáð er suðaustan tíu til fimmtán metrum á sekúndu á Reykjanesi í dag með súld eða rigningu á köflum og hita á bilinu fjögur til sjö stig. Gasmengun frá gosinu á að berast til norðvesturs íbúar í byggð frá Vogum, í Reykjanesbæ og allt til Hafna gætu orðið hennar varir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×