Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra mælti fyrir bandormsfrumvarpi ríkisstjórnarinnar um breytingar á sóttvarna- og útlendingalögum í dag. Stefnt er að því að ljúka nefndarstörfum og annarri og þriðju umræðu í kvöld þannig að lögin taki gildi á morgun og þar með þær viðbótaraðgerðir á landamærum sem ráðherrar kynntu í gær.
Frumvarpinu hefur almennt verið vel tekið á Alþingi þótt vissulega hafi komið fram athugasemdir frá stjórnarandstöðunni sem ræddar verða í velferðarnefnd.

Heilbrigðisráðherra sagði aðgerðir í frumvarpinu afmarkaðar og tímabundnar.
„Það liggur á að afgreiða málið vegna þess að við þurfum og viljum koma í veg fyrir þau smit sem koma um landamæri eins og nokkur er kostur,“ sagði Svandís.
Frumvarpið skyldar fólk frá tilteknum svæðum miðað við útbreiðslu covid 19 til að fara í sóttvarnahús milli skimana eftir komuna til landsins. Þá veitir það heimildir til að takmarka komu fólks frá frá sömu svæðum nema í brýnum erindagjörðum.
„Við þurfum auðvitað að gæta mjög vel að því í hverju skrefi í þessum faraldri að láta ekki kappið bera okkur ofurliði. Við erum núna stödd þar að það eru afar fáir á sjúkrahúsi. Það eru mjög fáir alvarlega veikir. Við erum komin mjög vel af stað með bólusetningar,“ sagði heilbrigðisráðherra. Vonandi verði hægt að aflétta öllum sóttvarnatakmörkunum ekki síðar en um mitt sumar.
Harðasta gagnrýnin á frumvarpið kemur frá Flokki fólksins sem leggur fram breytingatillögur. Flokkurinn vill mun harðari aðgerðir á landamærunum sem fela í sér að skylda alla á sóttkvíarhótel í sjö daga á milli tveggja skimana eftir komuna til landsinis.

Inga Sædal formaður flokksins sagði málflutning heilbrigðisráðherra mótsagnakenndan.
„Það er til dæmis verið að tala um, við skulum segja, að hindra fólk í sínu daglega lífi. Það sé verið að reyna að koma í veg fyrir það. Samt sem áður erum við búin að vera meira og minna hlekkjuð hér inni og hindruð í okkar daglega lífi,“ sagði Inga.
Ummæli hennar kölluðu á hörð viðbrögð frá heilbrigðisráðherra.
„Ég hafna málflutningi háttvirts þingmanns. Ég hafna því að Íslendingar og landsmenn hér hafi meira og minna hlekkjuð í sínu daglega lífi. Það er rangt,“ sagði Svandís Svavarsdóttir.