Erlent

Forseti Tjad féll í átökum við uppreisnarmenn

Samúel Karl Ólason skrifar
Idriss Deby vann nýverið sínar sjöttu kosningar til embættis forseta Tjad en hefur verið sakaður um slæma efnahagsstjórn og harðræði.
Idriss Deby vann nýverið sínar sjöttu kosningar til embættis forseta Tjad en hefur verið sakaður um slæma efnahagsstjórn og harðræði. EPA/ABIR SULTAN

Idriss Deby, forseti Tjad, er dáinn. Hann er sagður hafa dáið vegna sára sem hann hlaut þegar hann heimsótti víglínu hers Tjad og uppreisnarmanna í norðurhluta landsins. Upplýsingar um dauða forsetans eru enn á reiki.

Talsmaður hers landsins las þó í útvarpi í morgun að forsetinn væri dáinn. Hann hefði fallið í átökum við uppreisnarmenn í morgun. Deby var 68 ára gamall.

Deby vann nýverið kosningar í Tjad og var að hefja sjötta kjörtímabil sitt sem forseti landsins. Úrslit kosninganna voru opinberuð í gær. Hann hefur setið í embætti í rúma þrjá áratugi og hlaut hann rúmlega 79 prósent atkvæða í kosningunum, samkvæmt opinberum niðurstöðum.

Framboð Deby lýsti því yfir í gær að hann myndi leggja leið sína til víglínunnar og taka þátt í baráttunni gegn hryðjuverkamönnum, samkvæmt frétt Reuters-fréttaveitunnar

Uppreisnarmenn hafa lengi verið til staðar í norðurhluta landsins en Deby hefur glímt við auknar óvinsældir að undanförnu vegna efnahagsvandræða og ásakana um harðræði.

Mikil óreiða hefur ríkt í Tjad undanfarnar vikur vegna átaka við uppreisnarmenn sem tilheyra uppreisnarhóp sem kallast Front pour l’Alternance et la Concorde au Tchad, eða FACT, og hafa erlend ríki kallað flesta erindreka sína frá landinu.

FACT eru með höfuðstöðvar sínar í Líbýu og stýra sókninni að N'Djamena, höfuðborg Tjad. þaðan.

AFP-fréttaveitan segir her Tjad hafa lýst því yfir að herforinginn Mahamat Idriss Deby Itno, sonur forsetans látna, muni taka við stjórn herráðs landsins og herráðið muni stjórna landinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×